Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra flutti í dag ræðu á 61. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna (SÞ) í New York og sagði þar að íslensk stjórnvöld öxluðu ábyrgð með auknum framlögum til þróunarsamvinnu. Valgerður lagði jafnframt áherslu á stöðu kvenna og barna og tilgreindi aukin framlög íslenskra stjórnvalda til þróunarsjóðs SÞ fyrir konur, UNIFEM, og aukið framlag stjórnvalda, fyrirtækja og einstaklinga til þróunarsjóðs SÞ fyrir börn, UNICEF.
Á þessu allsherjarþingi er lögð sérstök áhersla á alþjóðlegt samstarf í þróunarmálum. Valgerður lagði einnig áherslu á umhverfismál og endurnýjanlega orku og sagði Ísland hafa sérstöðu hvað varðar jarðhita og gæti þar miðlað þekkingu sinni. Málefni hafsins hefðu einnig afgerandi áhrif á afkomu þróunarríkja í ljósi þess að 95% þeirra sem byggðu afkomu sína á fiskveiðum væru í þróunarríkjunum. Mengun hafsins og óábyrgar fiskveiðar væru því áhyggjuefni.
Valgerður greindi frá framlagi Íslands til aukinnar framþróunar og ábyrgðar á þessum sviðum, sem fælist meðal annars í þjálfun sérfræðinga frá þróunarríkjunum í háskólum S.þ. á Íslandi á sviði jarðhita og sjávarútvegs. Þá lagði utanríkisráðherra áherslu á að mannréttindi væru algild og ekki umsemjanleg.
Ráðherra þakkaði Kofi Annan, framkvæmdastjóra SÞ, sérstaklega fyrir framlag hans til alþjóðasamfélagsins, en hann lætur af störfum um næstu áramót og í lok ræðu sinnar minnti utanríkisráðherra á framboð Íslands til setu í öryggisráði SÞ árin 2009 og 2010.
Þá opnaði utanríkisráðherra nýja heimasíðu sem sett hefur verið upp til kynningar á framboði Íslands til sætis í öryggisráði SÞ. Í gær sat utanríkisráðherra morgunverðarfund smærri ríkja og átti tvíhliða fundi með utanríkisráðherrum Gvatemala, Íraks, Maldíveyja og Makedóníu, auk varautanríkisráðherra Víetnam. Í dag undirritar utanríkisráðherra yfirlýsingu um stofnun stjórnmálasambands við Svartfjallaland, sem er nýjasta aðildarríki SÞ, en Ísland var fyrst ríkja til að viðurkenna fullveldi Svartfjallalands. Frá þessu segir í tölvupósti frá utanríkisráðuneytinu.