Kvikmyndaverðlaun kirkjunnar veitt í fyrsta sinn

Kvikmyndaverðlaun kirkjunnar verða veitt í fyrsta skipti á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík sem hefst í dag. Verðlaunin verða veitt framúrskarandi kvikmynd sem þykir vekja með áhorfendum áhugaverðar tilvistarspurningar. Slík verðlaun hafa verið veitt um árabil erlendis.

Ein fyrirmynd íslensku verðlaunanna eru kvikmyndaverðlaun sænsku kirkjunnar sem hafa verið veitt undanfarin ár. Þau féllu í skaut íslensku kvikmyndinni Nói Albinói árið 2003, en í ár var það danska myndin Drömmen sem fékk verðlaunin. Hún verður sýnd á hátíðinni núna.

Við val á kvikmynd verður m.a. horft til þess að myndin teljist góð kvikmynd, að hún veki með áhorfendum tilvistarspurningar, að boðskap hennar megi skoða í ljósi fagnaðarerindisins og að hana megi nota í kirkjustarfi. Fjögurra manna dómnefnd velur verðlaunamyndina. Í henni sitja Árni Svanur Daníelsson, guðfræðingur, dr. Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor, Gunnar J. Gunnarsson, lektor, og Oddný Sen, kvikmyndafræðingur. Um verðlaunin keppa 14 myndir sem sýndar eru í flokknum Vitranir á hátíðinni.

Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn laugardaginn 7. október næstkomandi.

Fram kemur í tilkynningu að kvikmyndin verði sífellt mikilvægari sem miðill og margar myndir veki með áhorfendum tilvistarspurningar og nýtist þeim sem eins konar lífsspegill. Þetta hefur skilað sér inn í starf kirkjunnar þar sem kvikmyndir hafa verið notaðar í auknum mæli. Þá hefur rannsóknarhópurinn Deus ex cinema (www.dec.hi.is) verið ötull við að fjalla um trúar- og siðferðisstef í kvikmyndum og hefur meðal annars sett upp vefsíðu þar sem fjallað er um 500 kvikmyndir út frá þessum stefjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert