Meiri lækkanir á markaði en á bensínverði hérlendis

mbl.is
Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur elva@mbl.is
BENSÍNVERÐ hefur lækkað um 10% á Íslandi frá því um miðjan júlí en verðlækkun á mörkuðum erlendis er töluvert meiri og hefur verð á bensíni lækkað um 28% í krónum talið á sama tímabili, að því er fram kemur í Vegvísi Landsbankans. Magnús Ásgeirsson, innkaupastjóri eldsneytis hjá Esso, segir bensínverð næmt fyrir gengi dollara og þetta þurfi að hafa í huga þegar verðbreytingar á bensíni eru skoðaðar. Gengi dollars gagnvart krónu hafi undanfarið lækkað úr um 75 krónum í um 70 krónur nú. "Heimsmarkaðsverð á olíu í júlímánuði var 798 dollarar á tonnið af bensíni, en í ágúst var það 715 dollarar. Á sama tíma hefur gengisbreytingin verið hlutfallslega miklu minni. Verðið er næmt fyrir genginu og því er ekki hægt að taka bara erlenda verðið og reikna út frá því," segir Magnús. Hann bendir á að mesta lækkunin hafi í raun orðið í þessum mánuði, en þá "fór gengið að skila sér inn og við höfum í þessum mánuði lækkað verðið [á lítrann af bensíni] um sex krónur og sjötíu aura," segir hann. Um þróunina á næstunni segir Magnús að hann sé ekki bjartsýnn á frekari verðlækkanir á bensíni á næstunni. Hann hafi verið bjartsýnn en í gærmorgun hafi fregnir borist frá OPEC-framleiðsluríkjunum að þau hygðust halda neyðarfund í lok október þar sem rætt yrði um hugsanlega minnkun olíuframleiðslu. "Verðið hækkaði í gær [fyrradag] á heimsmarkaði. Það er eitthvað sem við gátum búist við því reynslan sýnir okkur það að þegar verð er búið að lækka mikið gengur það til baka. Við höfum séð breytingar upp á 30 dollara á einum degi en þá gengur það mjög oft til baka um tvo þriðju næsta dag." Hann segir að næsta mánuðinn megi búast við litlum breytingum á bensínverði, en "síðan gæti frekar sigið á verri hliðina í vetur ef það verður tekin ákvörðun um minnkun olíuframleiðslu."
Í hnotskurn
» Bensínverð náði hámarki á Íslandi um miðjan júlí.
» Þá var lítraverð á 95 oktana bensíni, með þjónustu, hærra en 135 krónur.
» Verðið hefur lækkað frá þessum tíma og í gær var algengt verð á lítra af 95 oktana bensíni 123,90 krónur.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert