Fánar Bandaríkjanna og Íslands voru dregnir niður á varnarstöðinni í Keflavík í dag, og fáni Íslands svo dreginn einn að húni. Markar þetta endalok dvalar bandaríska hersins á varnarstöðinni, en Íslendingar tóku alfarið við stjórn svæðisins í dag. Síðustu bandarísku hermennirnir fara af landi brott í dag og sér sýslumannsembættið á Keflavíkurflugvelli héðan í frá um alla gæslu á svæðinu. Það verður lokað almenningi þar til ákveðið hefur verið hvað verður gert við svæðið.