Dr. Guðfinna S. Bjarnadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, hefur ákveðið að gefa kost á sér í 3. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík við alþingiskosningarnar í maí á næsta ári. Guðfinna lauk BA prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands 1986 og M.A. prófi í sálfræði með áherslu á atferlisfræði frá West Virginia University 1989. Hún lauk doktorsprófi frá sama skóla 1991 með áherslu á árangursstjórnun.
Guðfinna starfaði sem grunnskólakennari við Myllubakkaskóla í Keflavík 1977-1982. Hún var forstjóri LEAD Consulting í Bandaríkjunum 1991-1998 en hefur verið rektor Háskólans í Reykjavík síðan 1998. Guðfinna hefur setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja og í ýmsum nefndum og ráðum bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum og flutt fjölmörg erindi á ráðstefnum beggja vegna Atlantshafsins.
Hún hlaut fálkaorðuna fyrir störf sín að menntamálum 2002 og Viðskiptaverðlaunin árið 2004. Hún var kjörin kona ársins árið 1998.