Sameiginlegar áherslur stjórnarandstöðunnar

Alþingishúsið við Austurvöll.
Alþingishúsið við Austurvöll. mbl.is

Þingflokkar Samfylkingarinnar, Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs (VG) og Frjálslynda flokksins kynntu í dag sameiginlegar áherslur sínar í upphafi þingvetrar. Stjórnarandstaðan mun á þessu þingi flytja nokkur sameiginleg grundvallarmál auk þess að standa sameiginlega að kosningum í nefndir og ráð á vegum þingsins.

„Þessi þingmál endurspegla það grundvallarviðhorf þingflokkanna að næstu ríkisstjórnar bíði það meginverkefni að auka jöfnuð og jafnrétti í samfélaginu, eftir áratug vaxandi ójafnaðar, jafnframt því að standa vörð um íslenska náttúru, nú þegar verulega er að henni sótt.

Í fyrsta lagi munu þingflokkarnir leggja fram sameiginlega tillögu til þingsályktunar um nýja framtíðarskipan lífeyrismála, sem hefur það að markmiði að bæta kjör aldraðra og öryrkja með markvissum aðgerðum. Tillagan felur annars vegar í sér tafarlausar kjarabætur til þessara hópa.

Hins vegar er lagður grunnur að nýskipan lífeyrismála, sem á að stuðla að því að lífeyrisþegar geti notið mannsæmandi kjara eins og aðrir landsmenn. Lagt er til að komið verði á afkomutryggingu sem tekur mið af raunverulegum framfærslukostnaði.

Þá er lífeyrisþegum gert auðveldara um vik að afla sér viðbótartekna með því að draga úr skerðingaráhrifum tekna á tekjutrygginguna og hækka frítekjumark vegna atvinnutekna. Jafnframt er lagt til að afnumin verði að fullu tengsl lífeyrisgreiðslna við tekjur maka.

Í tillögunni er lagt til að ný tekjutrygging aldraðra verði 85 þúsund krónur og öryrkja 86 þúsund krónur frá 1. janúar 2007. Frá sama tíma hækki frítekjumark vegna atvinnutekna í 75 þúsund krónur á mánuði og skerðing tekjutryggingar vegna atvinnutekna lækki úr 45% í 35%.

Í öðru lagi munu fulltrúar þingflokkanna í umhverfisnefnd þingsins leggja fram sameiginlega tillögu til þingsályktunar um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Þjórsárver eru stærsta og gróðursælasta votlendi á hálendi Íslands. Tillagan felur í sér að núverandi mörkum friðlandsins verði breytt og það stækkað þannig að sem mest af gróðurlendi svæðisins lendi innan friðlýsingarmarka ásamt með Þjórsá og svæðum sem liggja að Sultartangalóni.

Jafnframt er mælst til að stækkað friðland í Þjórsárverum verði tilnefnt á heimsminjaskrá UNESCO. Samhljóða tillaga hefur verið flutt undanfarin ár en hefur ekki náð fram að ganga vegna andstöðu ríkisstjórnarflokkanna.

Í tengslum við þingsályktunartillöguna um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum munu formenn flokkanna leggja fram sameiginlegt frumvarp um breytingu á lögum um raforkuver þess efnis að felld verði niður heimild iðnaðarráðherra til að leyfa gerð Norðlingaölduveitu. Byggt er á þeirri forsendu að ef tillagan um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum nær fram að ganga mun það leiða til þess að Norðlingaölduveita rúmast ekki innan hins stækkaða friðlands. Allir helstu fræðimenn og áhrifamenn um náttúrufar og umhverfisvernd telja Þjórsárver eina dýrmætustu náttúruperlu Íslendinga.

Þingflokkar Samfylkingarinnar, VG og Frjálslynda flokksins telja í ljósi verndargildis svæðisins að rétt sé að hætta við öll áform um orkuframkvæmdir á Þjórsárverasvæðinu. Í þriðja lagi munu þingmenn flokkanna flytja frumvarp um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Frumvarpið miðar að því að vinna gegn launaleynd, kynbundnum launamun og öðru misrétti kynjanna.

Frumvarpið felur í sér að Jafnréttisstofu verði veittar víðtækari heimildir en hún hefur nú, til að ganga úr skugga um það með rannsókn og gagnaöflun hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum jafnréttislaga. Þá er í frumvarpinu lagt til að réttur sérhvers starfsmanns til að gefa hvenær sem er upplýsingar um laun sín og önnur starfskjör verði skilgreindur. Loks er í frumvarpinu kveðið á um að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála verði bindandi.

Formenn þingflokkanna munu sameiginlega leggja fram tillögu varðandi stríðið í Írak og einnig verður á næstunni kynnt sameiginleg tillaga er snýr að raforkuverði," að því er segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert