Sérfræðingar KPMG telja brýnt að farið sé yfir fjármálastjórn Reykjavíkurborgar í heild sinni og leitað leiða sem ætla má að leiði til betri rekstrarárangurs. Sé tekið mið af framvindu áætlana fyrir síðustu ár hafa áform um hagræðingu ekki náð fram að ganga. Þetta kom fram á blaðamannafundi þar sem fjallað var um fjárhagsstöðu borgarinnar og úttekt KPMG kynnt.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri og Björn Ingi Hrafnsson, boðuðu til fundar með fréttamönnum að loknum fundi borgarráðs í dag. Borgarstjóri segir skýrslu KPMG staðfesta gagnrýni sína og fjölmargra annarra á fjármálastjórn Reykjavíkurborgar síðustu árin.
„Tölurnar og staðreyndirnar sem settar eru fram í skýrslunni tala sína máli, um þær þarf ekki að deila. Þetta er áfellisdómur yfir fjármálastjórn síðasta meirihluta. Eytt hefur verið um efni fram árum saman, skuldum safnað og þar með gengið á eignir og skattfé borgarbúa,“ segir Vilhjálmur.
Ljóst sé að Reykjavíkurborg verði að snúa þessari þróun við, breyta verði neikvæðri rekstrarniðurstöðu í jákvæða til langs tíma og bæta áætlanagerð.
Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs tekur undir með borgarstjóra og segir mikilvægt fyrir nýjan meirihluta að innleiða ábyrga fjármálastjórn og laga reksturinn. Við blasi ákveðinn fortíðarvandi sem takast verði á við og það verði gert.