Sækja 50 tonn af hrafntinnu í Hrafntinnusker

Frá Hrafntinnuskeri
Frá Hrafntinnuskeri mbl.is/RAX

eftir Egil Ólafsson

egol@mbl.is

SÍÐUSTU tvær helgar hafa verið tekin um 50 tonn af hrafntinnu úr Hrafntinnuskeri, en hún verður notuð til viðgerða á klæðningu Þjóðleikhússins. Efnið er tekið innan friðlandsins að Fjallabaki sem friðlýst var 1979. Flugbjörgunarsveitin á Hellu sá um að flytja hrafntinnuna til byggða.

Þegar Þjóðleikhúsið var byggt tók hönnuður hússins, Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins, ákvörðun um að klæða það að utan með blöndu af hrafntinnu og silfurbergi. Nú standa yfir viðamiklar endurbætur á leikhúsinu og hefur Umhverfisstofnun veitt heimild til að taka hrafntinnu úr Hrafntinnuskeri og silfurberg á Breiðdalsvík.

Fágæt bergtegund á heimsvísu sótt inn á friðlýst svæði

Í auglýsingu um friðlýsingu friðlands að Fjallabaki segir að óheimilt sé að "hrófla við bergmyndunum", en jafnframt segir að efnistaka og annað jarðrask á friðlandinu sé háð samþykki Umhverfisstofnunar. Strangar reglur gilda um umferð ökutækja í friðlandinu.

Um 70 félagar í flugbjörgunarsveitinni á Hellu tóku þátt í að flytja hrafntinnuna úr Hrafntinnuskeri, en sveitin samdi við Fjársýslu ríkisins um að tína hrafntinnuna upp og koma henni til Hafnarfjarðar þar sem hún verður unnin.

Svanur Lárusson, formaður Flugbjörgunarsveitarinnar, sagði að hrafntinnan hefði verið tínd upp af jörðinni á um tveggja hektara svæði. Hún hefði verið flutt á sexhjólum um hálfs kílómetra leið þar sem henni var komið á vörubíla. Strangar kröfur hefðu verið gerðar um frágang að efnistöku lokinni. Rakað hefði verið yfir öll hjólför. Svanur sagði að veðrun í vetur sæi um að þurrka út öll ummerki um efnistöku í Hrafntinnuskeri og raunar hefðu þau verið mjög lítil.

Í hnotskurn
» Upphaflega var áformað að taka hrafntinnu úr Hrafntinnuhrygg, en síðar kom í ljós að líklega var þar ekki að finna hrafntinnu í nægilega miklu magni.
» Hrafntinnan er tínd upp af jörðinni á um tveggja hektara svæði. Steinarnir eru 2-5 kíló hver.
» Umhverfisstofnun lagði áherslu á að taka ekki alla hrafntinnu á svæðinu sem leyft var að tína á.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert