Aldrei fengið jafn sterk viðbrögð við neinu

Eva María Jónsdóttir
Eva María Jónsdóttir mbl.is/ÞÖK

eftir Guðna Einarsson

gudni@mbl.is

"ÉG held ég hafi aldrei fengið jafn sterk viðbrögð við neinu sem ég hef gert í vinnunni. Það er greinilegt að þetta brennur á mörgum," sagði Eva María Jónsdóttir dagskrárgerðarkona um viðtal við hana, Þarfir fullorðna fólksins ráða, sem birtist í Morgunblaðinu 1. október sl. Viðbrögðin hafa borist í sendibréfum, tölvupósti, síma og fólk gefið sig á tal við Evu Maríu á förnum vegi. Undantekningarlaust hefur verið tekið undir sjónarmiðin sem Eva María tjáði í viðtalinu.

"Ég bjóst við að fá einhverjar skammir fyrir að vera íhaldssöm, afturhaldssöm og að vinna gegn jafnrétti kynjanna. Það er fjarri mér að tala fyrir afturhvarfi til fortíðar. Ég er einfaldlega að benda á að eftir að báðir foreldrar fóru að vinna utan heimilis hafa börnin sopið seyðið af löngum vinnudegi og fjarvistum þeirra fullorðnu og það er ekki bara allt í fína. Ég hef ekki fengið nein neikvæð viðbrögð, en grunntónninn er að börnin eigi það skilið að við setjum þeirra þarfir fremst í forgangsröðina. Við, þau fullorðnu, getum bjargað okkur sjálf. En börnin þurfa á okkur að halda. Fólk vill að börnin, þarfir þeirra og hagur séu efst á blaði þegar fengist er við mál þar sem börn koma við sögu."

Eva María benti á taka þurfi tillit til jafnréttismála og umhverfismála við ýmsar framkvæmdir og skipulagningu. "Nýja tillitssemin ætti að vera gagnvart börnum." Þá þurfi vinnuveitendur að taka meira tillit til þarfa barnafólks, en á það skorti.

Í hnotskurn
Eva María lýsti þeirri skoðun sinni í viðtali við Morgunblaðið 1. október sl. að íslenskt samfélag tæki ekki nóg tillit til þarfa barna og barnafólks. Eva María telur að hinir fullorðnu þurfi að taka meira tillit til barnanna í stað þess að fljóta með straumnum og stjórnast af lífsgæðakapphlaupinu.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert