Lagt til að stofnaður verði menningarsjóður OR

Húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur
Húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur mbl.is/Sverrir

Stefán Jón Hafstein lagði til á stjórnarfundi Orkuveitu Reykjavíkur í dag að stofnaður yrði menningarsjóður Orkuveitunnar. OR hefur, að sögn Stefáns Jóns, tekið þátt í mörgum samfélagslegum verkefnum á liðnum árum.

Í svari við fyrirspurn sem Stefán Jón lagði fram um efnið í stjórn kemur fram að árin 2000-2005 var varið 201 milljón króna til lista, íþrótta og samfélagslegra verkefna. Að meðaltali nema framlög til félags- og góðgerðamála 3,6 milljónum króna á ári, til íþróttamála 4,7 milljónum, til menningar og lista 10,3 milljónum króna, til menntamála 11,1 milljón og til umhverfismála 3,7 milljónum króna.

Samkvæmt upplýsingum frá Stefáni Jóni telur hann að styrkja eigi þessa starfsemi með reglubundnum framlögum og gera þetta starfsemi gagnsæja.

„Lag er til að stofnaður verði menningarsjóður Orkuveitu Reykjavíkur. Sjóðurinn hafi stofnskrá og stjórn. Markmið sjóðsins verði að tryggja reglubundin framlög Orkuveitunnar til menningamála á Íslandi. Það verði gert með gagnsæjum hætti og samkvæmt opinberum reglum sjóðsins til að tryggja jafnræði umsækjenda og fagmennsku í úthlutunum. Leitað verði fyrirmynda hjá t.d. menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkurborgar, og leitað verði samráðs við Bandalag íslenskra listamanna, (BÍL) um fyrirkomulag og hugsanlega þátttöku.

Í greinargerð segir: Orkuveitan hefur stutt mörg menningarleg verkefni á undanförnum árum. Mikilvægt er að fyrirtækið sýni metnað á þessu sviði áfram sem hingað til. Til að tryggja reglubundin framlög og faglega meðhöndlum umsókna og úthlutana verði þessi sjóður stofnaður, auglýst eftir umsóknum, og þangað vísað öllum hugmyndum og óskum um framlög til menningarlífs, samtaka eða félaga. Sjóðurinn verði stofnaður hið síðasta 1. janúar 2007," samkvæmt upplýsingum frá Stefáni Jóni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert