Listakonan og friðarsinninn Yoko Ono afhenti styrki úr friðarsjóðnum „LennonOno Grant For Peace” við hátíðlega athöfn við Höfða í dag, en í dag er jafnframt fæðingardagur Johns Lennons sem hefði orðið 66 ára gamall.
Samtökin Læknar án landamæra og Miðstöð fyrir stjórnarskrárvarin réttindi fengu styrkina afhenta, en þeir nema um 50.000 dölum hvor, um 3,5 milljón kr.
Læknar án landamæra eru sjálfstætt starfandi alþjóða heilbrigðis- og mannúðarsamtök sem veitir neyðaraðstoð til fórnarlamba stríðsátaka, faraldurs eða hamfara af náttúrunnar eða manna völdum. Samtökin hafa veitt aðstoð í yfir 70 löndum, allt frá Gvatemala til Zimbabve.
Miðstöð fyrir stjórnarskrárvarin réttindi (CCR) hefur gegnt lykilhlutverki í mörgum af umtöluðustu málaferlum síðari ára sem snúið hafa að verndun mannréttinda. Meginvopn þeirra er að beita lagabókstafnum sem jákvæðu afli í baráttunni fyrir þjóðfélagsbreytingum. CCR eru meðal annars kunn fyrir sigurinn í hinum umdeildu Guantánamo réttarhöldum 2004 og beita samtökin sér áfram í málaferlum sem snúa að alþjóðlegum mannréttindum, kynþáttajafnrétti, félagslegu réttlæti, borgararéttindum, misbeitingu valds og almennra mannréttinda í kjölfar 11. september.
Yoko Ono rökstyður styrkveitinguna á eftirfarandi hátt: „Þessi tvö samtök horfa lengra en til átaka og gereyðingar samtímans og eygja bjarta framtíð fyrir samfélag okkar, með óeigingjarnri og óþreytandi baráttu sinni fyrir friðsamlegra umhverfi fyrir plánetu okkar. Þau eru verðugir fulltrúar hinna fjölmörgu samtaka sem miða að sama marki um þessar mundir. Þau þurfa og eiga skilið allan okkar stuðning og virðingu.“
Þetta er í þriðja sinn sem styrkir úr sjóðnum eru veittir en sjóðurinn var settur á fót árið 2002 og sama ár var í fyrsta sinn veitt úr honum á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York. Veitt er úr sjóðnum annað hvert ár og í ár varð Reykjavík fyrir valinu.
Að lokinni athöfn í Höfða var hélt Yoko Ono út í Viðey þar sem hún helgaði staðinn þar sem friðarsúlan „Imagine Peace Tower“ verður reist.
Í Morgunblaðinu á morgun má lesa ítarlegra viðtal við Yoko Ono.