Árið 1986 hittust leiðtogar Sovétríkjanna og Bandaríkjanna, þeir Mikhaíl Gorbatsjov og Ronald Reagan, hér í Höfða til þess að ræða afvopnunarmál. Fundurinn vakti að vonum heimsathygli á sínum tíma. Í dag, 20 árum síðar, er Gorbatsjov aftur staddur í Höfða, nú í boði borgarstjóra Reykjavíkur.
Í þetta sinn var ekki tekist á um kjarnorkuvopnaeign risaveldanna tveggja í Höfða heldur var þar snæddur hádegisverður. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri tók á móti Gorbatsjov og sýndi honum um í Höfða, auk þess sem Gorbatsjov ávarpaði gesti.
Á meðal gesta voru Steingrímur Hermannsson, Vigdís Finnbogadóttir og Davíð Oddsson, en sem kunnugt er var Steingrímur forsætisráðherra fyrir 20 árum, Vigdís var forseti og Davíð var borgarstjóri Reykjavíkur þegar leiðtogafundurinn fór fram.
Gorbatsjov kom til landsins í gær með einkaflugvél athafnamannsins Björgólfs Thors Björgólfssonar. Við komuna kvaðst hann vera glaður yfir því vera kominn aftur til Íslands 20 árum eftir leiðtogafundinn, sem að hans viti markaði mikil tímamót í samtímasögu Íslands.
Gorbatsjov heldur fyrirlestur í Háskólabíói síðar í dag til að minnast leiðtogafundarins, en jafnframt mun hann ræða um stjórnun á 21. öld og friðarmál.