Fullyrðir að Jón Baldvin hafi sætt hlerunum

Jón Baldvin Hannibalsson
Jón Baldvin Hannibalsson

Fyrrverandi starfsmaður Landssímans hringdi í Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra (1988-1995), á miðvikudagskvöld til að segja honum að hann hefði orðið vitni að því sem starfsmaður Landssímans á sínum tíma er símtal Jóns Baldvins við annan mann var hlerað. Þetta segir Jón Baldvin en lætur ekki uppi nafn starfsmannsins. Samkvæmt frásögn Jóns Baldvins hafði málið lengi hvílt á viðkomandi starfsmanni. Á sínum tíma hefði starfsmaðurinn látið vitneskju sína liggja milli hluta því hann óttaðist um starf sitt hefði hann gert eitthvað í málinu þá. "Nú kvaðst hann ekki geta lengur orða bundist vegna þess að honum fannst það þurfa að koma fram í þessari umræðu að hleranir voru stundaðar," segir Jón Baldvin. "Það er í stjórnstöð Landssímans sem það fer fram," bætir hann við.

Jón Baldvin segir að Landssímamaðurinn fyrrverandi hafi séð kollega sinn sitja mánuðum saman við hleranir. Hafi sá fyrrnefndi gengið úr skugga um að það var sími Jóns Baldvins sem var hleraður en þetta hafi hann fengið staðfest þegar hlerunarmaðurinn var fjarri.

Þegar Landssímamaðurinn hringdi nú í Jón Baldvin til að tjá honum reynslu sína kynnti hann sig með nafni, að því er Jón Baldvin segir og kvaðst viðkomandi starfsmaður reiðubúinn að staðfesta það sem hann sagði Jóni Baldvini þegar hann teldi það annaðhvort nauðsynlegt eða æskilegt. "En hann vildi áskilja sér rétt til þess að ákveða það sjálfur. Hann fór fram á það að ég nefndi ekki nafn hans að sinni og ég virði það," segir Jón Baldvin.

Halldór Blöndal, landbúnaðar- og samgönguráðherra á árunum 1991-1995 og æðsti yfirmaður Pósts og síma á þessum tíma, kannast ekki við að hafa nokkru sinni heyrt af hlerunum í Landssímanum. "Mér þykir mjög undarlegt ef starfsmenn Pósts og síma hafa verið að fylgjast með samtölum utanríkisráðherra og þá kannski annarra ráðherra," segir hann. "Þá er mjög undarlegt að viðkomandi starfsmaður skuli ekki hafa skýrt sínum yfirmönnum frá því og eftir atvikum mér," segir hann.

Kom inn í mitt samtal tveggja ráðherra

Magnús Skarphéðinsson kom fram í Kastljósi Sjónvarpsins, sem og Jón Baldvin og sagði Magnús að hann hefði fyrr á árum lengi haft á tilfinningunni að sími sinn væri hleraður. Eitt sinn þegar hann hefði hringt út í bæ hefðu komið miklir smellir á línuna og skyndilega hefði hann verið staddur í miðju símtali Þorsteins Pálssonar, þáverandi forsætisráðherra, og Halldórs Blöndal. Umræðuefnið hefði verið eldhúsdagsumræður á Alþingi, menn og málefni og þvíumlíkt. "Ég hlustaði lengi á þetta samtal og hugsaði með mér að, ef einhver á að trúa mér, þá tek ég nú upp þetta samtal og kveikti á segulbandinu og lofaði mönnum sem ég treysti að hlusta á þetta," sagði Magnús. Sagði hann að nokkrir valinkunnir menn hefðu fengið að heyra upptökuna. Sagðist hann hafa sagt Matthíasi [Johannessen þáverandi ritstjóra Morgunblaðsins], sem ekki hefði trúað frásögn hans en hefði borið málið undir Þorstein. "Og þetta reyndist rétt, ég vissi allt innihald samtalsins," sagði Magnús.
Í hnotskurn
» Fyrrverandi starfsmaður Landssímans sagðist hafa orðið vitni að því þegar kollegi hans hleraði síma Jóns Baldvins Hannibalssonar í ráðherratíð hans.
» Símamaðurinn var að sögn Jóns Baldvins hræddur við að segja frá málinu á sínum tíma þar sem hann óttaðist að missa vinnuna.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert