Fundað á Bessastöðum um aðgerðir gegn loftlagsbreytingum

Ólafur Ragnar Grímsson ásamt Björgólfi Thor Björgólfssyni og Ólafi Elíassyni.
Ólafur Ragnar Grímsson ásamt Björgólfi Thor Björgólfssyni og Ólafi Elíassyni.

Alþjóðlegur samráðsfundur um aðgerðir gegn loftlagsbreytingum fór fram á Bessastöðum í dag í boði Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Frumkvæði að fundinum hafa samtök ungra forystumanna á heimsvísu, Young Global Leaders, sem starfa á vettvangi hinnar árlegu Davos-ráðstefnu, World Economic Forum.

Fundurinn ber heitið Iceland Climate Change Action Summit og taka þátt í honum um 70 forystumenn víða að úr veröldinni úr alþjóðlegu viðskiptalífi, í fjölmiðlum og frjálsum félagasamtökum sem beita sér sérstaklega í umhverfismálum; einnig fjárfestar sem hafa áhuga á endurnýjanlegum orkugjöfum og verkefnum til að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda. Fundargestum var kynnt nokkur verkefni sem Íslendingar standa að í orku- og umhverfismálum, segir í tilkynningu frá skrifstofu forseta.

Fundurinn er hinn fyrsti sinnar tegundar og er ætlunin að þróa raunhæfar leiðir í umhverfismálum með því að tengja saman fjármagn og nýsköpun.

Ísland er vettvangur fundarins, bæði vegna boðs forseta Íslands og vegna þess árangurs sem hér hefur náðst í vistvænni orkuframleiðslu. Fulltrúar í samtökum ungra forystumanna á heimsvísu (www.younggloballeaders.org) eru valdir af hinni heimsþekktu ráðstefnu í Davos á þeim grundvelli að þeir séu líklegir til að skipa sér í raðir helstu forystumanna veraldar á komandi árum.

Tveir Íslendingar taka þátt í aðgerðahópi samtakanna gegn gróðurhúsaáhrifum: Björgólfur Thor Björgólfsson alþjóðlegur fjárfestir og Ólafur Elíasson myndlistarmaður.

Bakhjarlar fundarins eru Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors, og Nand & Jeet Khemka Foundation.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert