Alþjóðlegur samráðsfundur um aðgerðir gegn loftlagsbreytingum fór fram á Bessastöðum í dag í boði Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Frumkvæði að fundinum hafa samtök ungra forystumanna á heimsvísu, Young Global Leaders, sem starfa á vettvangi hinnar árlegu Davos-ráðstefnu, World Economic Forum.
Fundurinn ber heitið Iceland Climate Change Action Summit og taka þátt í honum um 70 forystumenn víða að úr veröldinni úr alþjóðlegu viðskiptalífi, í fjölmiðlum og frjálsum félagasamtökum sem beita sér sérstaklega í umhverfismálum; einnig fjárfestar sem hafa áhuga á endurnýjanlegum orkugjöfum og verkefnum til að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda. Fundargestum var kynnt nokkur verkefni sem Íslendingar standa að í orku- og umhverfismálum, segir í tilkynningu frá skrifstofu forseta.
Fundurinn er hinn fyrsti sinnar tegundar og er ætlunin að þróa raunhæfar leiðir í umhverfismálum með því að tengja saman fjármagn og nýsköpun.
Ísland er vettvangur fundarins, bæði vegna boðs forseta Íslands og vegna þess árangurs sem hér hefur náðst í vistvænni orkuframleiðslu. Fulltrúar í samtökum ungra forystumanna á heimsvísu (www.younggloballeaders.org) eru valdir af hinni heimsþekktu ráðstefnu í Davos á þeim grundvelli að þeir séu líklegir til að skipa sér í raðir helstu forystumanna veraldar á komandi árum.
Tveir Íslendingar taka þátt í aðgerðahópi samtakanna gegn gróðurhúsaáhrifum: Björgólfur Thor Björgólfsson alþjóðlegur fjárfestir og Ólafur Elíasson myndlistarmaður.
Bakhjarlar fundarins eru Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors, og Nand & Jeet Khemka Foundation.