Á undanförnum mánuðum hefur ástandið í atvinnumálum á Bakkafirði verið með versta móti og þar af leiðandi hefur fólksflótti frá Bakkafirði verið mikill. Hátt í 40 manns hafa á síðustu misserum flutt frá Bakkafirði og sér ekki fyrir endann á því. Má að mestu rekja fólksflóttann til slæms atvinnuástands. Þetta kemur fram á vefnum bakkafjordur.is.
Gunnólfur sem rekur stærstu fiskverkunina á Bakkafirði hefur undanfarið verið í hálfgerðu lamasessi en þar eru aðeins örfáir starfsmenn að vinna 3-4 daga í viku en í fyrra voru 27 manns að vinna í Gunnólfi. Ekki bætir úr skák að Ratsjárstofnun hefur staðið í niðurskurði á Gunnólfsvíkurfjalli, fyrst í fyrra er sagt var upp nokkrum tæknimönnum og svo aftur nú þar sem nokkrum hefur verið sagt upp og önnur störf flutt suður.
Bakkafjordur.is hefur nú þegar upplýsingar um að á næstu 7 mánuðum muni átta manns líklega flytja úr sveitarfélaginu í viðbót við þá 40 sem fyrr voru nefndir, en fækkunin er mikil blóðtaka fyrir 126 manna, (fyrrum Skeggjastaðahrepp) byggðarlag, því þá eru bara eftir 86 manns eða 32 % fækkun á íbúum á aðeins rúmu ári, að því er segir á bakkafjordur.is.