Mjólka undrast viðbrögð landbúnaðarráðherra

Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri Mjólku.
Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri Mjólku. mbl.is/Eyþór

Yfirlýsing landbúnaðarráðherra í hádegisfréttum Útvarpsins þess efnis að hann ætli ekki að beita sér fyrir breytingu á búvörulögum svo mjólkuriðnaðurinn verði ekki undanþeginn samkeppnislögum vekja furðu framkvæmdastjóra Mjólku, ekki síst í ljósi afdráttarlausrar niðurstöðu úrskurðar Samkeppniseftirlitsins sem birtur var fyrir helgi.

Haft var eftir Guðna Ágústssyni landbúnaðarráðherra í hádegisfréttum Útvarps að hagkvæmast sé að mjólkuriðnaðurinn sé undanþeginn samkeppnislögum og hann ætli ekki að beita sér fyrir lagabreytingu þó Samkeppniseftirlit hvetji til þess. Hann er ósammála forstjóra Samkeppniseftirlitsins sem segir að mjólkuriðnaðurinn eigi ekki að vera undanþeginn samkeppnislögum.

Fram kemur í tilkynningu frá Mjólku að í úrskurði Samkeppniseftirlitsins um opinberar hömlur í mjólkuriðnaði sé undirstrikað að verðsamráð, markaðsskipting og annað samkeppnishamlandi samráð milli keppnauta séu alvarlegustu brotin á samkeppnislögum og geti varðað viðkomandi fyrirtæki stjórnvaldssektum og stjórnendur þeirra refsingu. Þá sé einnig á það bent að það sé á engan hátt eðlilegt að veita slíkum fyrirtækjum óskilyrta undanþáðu til að grípa til aðgerða sem að öllu jöfnu felist í alvarlegum samkeppnishömlum.

„Með búvörulögunum nr. 85/2004 hafa vinnubrögð sem teljast til refsiverðar háttsemi í öllum öðrum atvinnugreinum og rekstri verið lögleyft innan Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Þessi tilhögun, sem leyfir verðsamráð, skiptingu markaða og verkaskiptingu langstærstu fyrirtækja í matvælaframleiðslu á Íslandi, þekkist hvorki í nágrannaríkjum okkar eða innan Evrópusambandsins. Þar væri slík háttsemi litin mjög alvarlegum augum enda refsiverð,“ segir Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri Mjólku, í tilkynningu.

„Viðbrögð Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra við úrskurði Samkeppniseftirlitsins vekja því mikla furðu og eru alveg úr takti við aðra þróun í samfélaginu, sérstaklega í ljósi þess að Osta- og smjörsalan og MS eru langstærstu fyrirtækin í vinnslu og framleiðslu matvæla á innlendum neytandamarkaði,“ segir Ólafur. Hann bendir jafnframt á að þessi fyrirtæki njóti ríkisstyrkja til niðurgreiðslu á mjólk, til útflutnings á afurðum sínum og síðast en ekki síst þá njóti þau lögverndar til einokunar á markaði.

„Yfirlýsing ráðherra er því líka áfall fyrir bændur og neytendur þar sem það er álit Samkeppniseftirlitsins að Mjólka hafi bæði bætt hag bænda og neytenda,“ segir Ólafur. „Það blasir líka við ef þessi einokunarfyrirtæki fá áfram að vera undanþegin samkeppnislögum og fá óátalið að beita refsiverðu athæfi í samkeppni við innlenda framleiðendur, þá mun mjólkuriðnaðurinn hér á landi ekki verða í stakk búinn til að bregðast við erlendri samkeppni og dagar þá á endanum uppi eins og nátttröll. Því skorum við á Guðna Ágústsson að skoða sinn gang betur og óskum jafnframt eftir fundi með landbúnaðarráðherra til að fara yfir þessi mál,“ segir framkvæmdastjóri Mjólku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert