Þingmenn voru harðorðir í garð lífeyrissjóða í dag og gagnrýndu sjóðina fyrir fyrirhugaða skerðingu á lífeyrisgreiðslum til öryrkja. Sagði Helgi Hjörvar, málshefjandi, að verið væri að ræna örorkulífeyrisþega um hábjartan dag og óskaði hann eftir að fjármálaráðherra tæki ákvörðunina til baka.
Árni M. Matthiesen fjármálaráðherra sagðist skilja öryrkja mjög vel, en að leiðin til að hnekkja ákvörðuninni væri ekki um ráðuneyti. Sagði Árni gerðardóm þann eftirlitsaðila sem ætlað væri að úrskurða í slíkum málum og að skynsamlegast væri fyrir ósátta að fara þá leið.