Breskur almenningur mótmælir hvalveiðum Íslendinga

Hvalveiðiskipin í Reykjavíkurhöfn.
Hvalveiðiskipin í Reykjavíkurhöfn. mbl.is

Um 30 tölvupóstar hafa borist íslenska sendiráðinu í Lundúnum í morgun þar sem fólk lýsir óánægju sinni með þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni að nýju. „Það sem við höfum helst orðið varir við hér er að það hefur orðið aukning á tölvupósti til okkar í morgun,“ segir Haukur Ólafsson, sendifulltrúi í sendiráðinu. Hann segir fólk vera að mótmæla ákvörðun stjórnvalda. „Já, eigum við ekki að segja að nær allur tölvupóstur sem hefur borist í morgun sé í þá veruna. Menn eru að mótmæla þessum hvalveiðum.“

„Ég held að við séum búnir að fá um 30 tölvupósta í morgun það sem af er, núna þegar klukkan er að verða 11:30 hjá okkur,“ segir Haukur.

Hann telur að hvalveiðarnar muni ekki hafa slæm áhrif á samskipti ríkjanna. „Það er alltof snemmt að fara að tala um það, en ég held að þetta muni ekki hafa nein slæm áhrif á opinber samskipti milli landanna. En þetta gæti hugsanlega haft einhver önnur áhrif.“

„Það hafa alltaf verið að streyma inn tölvupóstar til sendiráðanna, ekki bara hér heldur líka til annarra, þar sem menn hafa verið að mótmæla vísindahvalveiðunum sem hófust 2003. Þeir sem eru á móti hvalveiðum gera engan sérstakan greinarmun á því hvort um er að ræða vísindaveiðar eða aðrar veiðar. Þannig að við höfum alltaf verið að fá inn svona tölvupósta, þótt vissulega hafi orðið aukning í dag,“ segir Haukur.

Að sögn Hauks komu um 70.000 breskir ferðamenn til Íslands á síðasta ári, en hann segir of snemmt að segja til um hvort veiðarnar muni hafa áhrif á þann fjölda. „Ég veit það ekki, það er bara framtíðin sem leiðir það í ljós. Menn munu eflaust skoða þær tölur þegar fram líða stundir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert