Tíu manna hópur úr KFUM og KFUK stendur að söfnun jólagjafa fyrir fátæk börn í Úkraínu og ber verkefnið heitið Jól í skókassa, en það felst í því að fá börn jafnt sem fullorðna til að setja nokkrar gjafir í skókassa. Gjafirnar eru síðan sendar þurfandi börnum í Úkraínu em kassarnir fara meðal annars á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra foreldra.
Fyrir jólin 2004 söfnuðust 500 skókassar en fyrir jólin 2005 urðu kassarnir 2660. Þeir sem hafa áhuga á að leggja sitt af mörkum eru beðnir um að fylgja þessum leiðbeiningum:
Byrjið á að finna tóman skókassa og pakkið honum inn í jólapappír. Athugið að mikilvægt er að pakka lokinu sérstaklega inn svo hægt sé að opna pakkann. Ákveðið fyrir hvaða aldurshóp gjöfin á að vera, strák eða stelpu 2-4 ára, 5-9 ára eða 10-14 ára, og merkið með viðeigandi merkimiða á lokið. Setjið svo gjafir eins og ritföng, föt, leikföng, hreinlætisvörur og sælgæti í skókassann. Best er að setja einn hlut úr hverjum þessara flokka í kassann. Setjið að lokum 300-500 kr í umslag efst í kassann fyrir sendingarkostnaði.
Tekið verður á móti skókössum í aðalstöðvum KFUM og KFUK, Holtavegi 28, alla virka daga frá kl. 8-17 og er síðasti skiladagur 11. nóvember frá kl. 11-16. Þann dag fer fram kynning á verkefninu, léttar veitingar verða í boði og eru allir hjartanlega velkomnir. Á Holtavegi 28 er einnig hægt að fá tóma skókassa. Á Akureyri verður tekið á móti skókössum í Sunnuhlíð sunnudaginn 5. nóvember frá kl. 15-17. Annars er síðasti skiladagur fyrir þá sem búa utan höfuðborgarsvæðisins 8. nóvember.