Fékk ellefu símtöl á klukkustund

eftir Andra Karl

andri@mbl.is

FIMMTÁN ára stúlka vissi vart hvaðan á sig stóð veðrið þegar ókunnugir karlmenn hófu að hringja í hana nú nýverið, með alls kyns óhugnanleg tilboð. Bekkjarfélagi stúlkunnar hafði þá sett persónuupplýsingar og símanúmer hennar á íslenskan einkamálavef.

Pilturinn bjó til einkamálaauglýsingu fyrir hönd stúlkunnar, án hennar vitundar, á skólatíma og svaraði morguninn eftir þeim skilaboðum sem borist höfðu - 11-13 skilaboð. Gaf hann þá m.a. upp símanúmer stúlkunnar og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Á einni klukkustund bárust stúlkunni símtöl frá ellefu karlmönnum og um hádegisbil voru 58 svör komin við auglýsingunni.

Í millitíðinni komst upp um málið og var vefstjóra einkamálavefjarins gert að fjarlægja auglýsinguna. Í kjölfarið funduðu skólastjórnendur með öllum aðilum málsins en óvíst er enn hvort foreldrar stúlkunnar munu kæra athæfið.

Ein tegund eineltis

Með ódýrum myndavélasímum og bloggvefjum virðist auðvelt að níða einstaklinga, og oft erfitt að hafa hendur í hári þeirra sem leggja slíkt í vana. Ábyrgð foreldra er mikil og á vefsvæði SAFT - Samfélag, fjölskylda og tækni er að finna margvíslegar upplýsingar fyrir foreldra um örugga net- og farsímanotkun barna og unglinga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert