"Íslendingar hafa engan markað fyrir hvalkjöt"

Fréttin um að Íslendingar hyggist hefja hvalveiðar í atvinnuskyni að nýju vakti verulega athygli á Vesturlöndum í gær.

Fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC, skýrði frá ákvörðun íslensku ríkisstjórnarinnar og var það næststærsta frétt vefjarins fram eftir degi. Allar helstu fréttastofur Vesturlanda skýrðu einnig frá ákvörðuninni, þeirra á meðal Reuters, AFP og AP. Bandarísk dagblöð á borð við Washington Post, New York Times og USA Today birtu frétt AP á fréttavefjum sínum.

Norrænir netmiðlar, þeirra á meðal vefur norska blaðsins Aftenposten, greindu einnig frá tíðindunum.

Fréttastofan AFP hafði eftir talsmanni Alþjóðlegu verndarsamtakanna (IUCN) að ákvörðun íslensku stjórnarinnar væri mikið áhyggjuefni og gæti orðið til þess að fleiri þjóðir hæfu hvalveiðar.

Veldur þjóðinni álitshnekki

"Íslendingar hafa engan markað fyrir hvalkjöt, en þeir hafa feikistóran og verðmætan markað fyrir hvalaskoðunarferðir," hafði AP eftir talsmanni Grænfriðunga, Frode Pleym. "Í stað þess að veðja á eins manns herferð fyrir því að blása lífi í úrelta og þarflausa atvinnugrein, sem getur aðeins valdið þjóðinni álitshnekki út um allan heim, ættu Íslendingar að færa sér vaxandi áhuga á hvalaskoðun í nyt."

AFP hafði eftir Pleym að umhverfisverndarsamtök teldu ekki að Íslendingar hefðu rétt til að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni að nýju. "Þetta brýtur augljóslega í bága við markmið hvalveiðibannsins."

"Þetta er skref í rétta átt," hafði hins vegar Aftenposten eftir Rune Frøvik, leiðtoga Norðurheimsskautssamtakanna, sem styðja hvalveiðar. "Það er gott að tvær þjóðir skuli nú heimila hvalveiðar í atvinnuskyni," sagði hann og skírskotaði til Norðmanna sem hafa veitt hvali.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert