Hvalur 9 var á veiðislóð í gærkvöldi vestur af landinu en ekki var vitað hvort veiðst hefði hvalur. Gert er ráð fyrir að frysta hvalaafurðir á Akranesi en draga hvali á land í Hvalfirði. Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf., segist ekki vita betur en öll leyfismál séu í lagi.
Bandaríkjastjórn lýsti í gær yfir vonbrigðum með hvalveiðar Íslendinga. Carlos M. Gutierrez viðskiptaráðherra sagði í yfirlýsingu að Bandaríkin myndu ráðfæra sig við aðrar þjóðir í því skyni að vernda hvali. Þá hefur ákvörðunin um veiðarnar vakið hörð viðbrögð sjávarútvegsráðherra Bretlands sem boðaði sendiherra Íslands í Bretlandi á sinn fund í gær.
Ástralski umhverfisráðherrann gagnrýndi ákvörðunina og sagði hana óábyrga. Um væri að ræða sorgardag. Ríkisstjórn Nýja-Sjálands hefur einnig fordæmt veiðarnar.
Magnús Oddsson ferðamálastjóri kvað Ferðamálastofu hafa borist í gær 50 tölvupóstar frá erlendum ríkisborgurum þar sem hvalveiðum Íslendinga er mótmælt.
Forseti IWMC World Conservation Trust segir að Ísland muni veiða svo lítinn hluta hvalastofnanna að menn hljóti að vera með óráði ef þeir haldi því fram að veiðarnar hafi langtímaáhrif á stofnana.