Pálmi Haraldsson, sem á Fons í félagi við Jóhannes Kristinsson, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að nú væri verið að skoða flugvélar, sem hentugar gætu verið fyrir Iceland Express í innanlandsflug. "Ég var m.a. að skoða vél frá Saab, 50 sæta, hraðskreiða, sem gæti hentað okkur mjög vel," sagði Pálmi.
"Við erum að skoða það af fullri alvöru að stofna sérstakt félag um innanlandsflug, sem myndi hefja flug næsta vor, til Akureyrar og Egilsstaða. Við teljum okkur geta boðið upp á flug til þessara staða á mun lægra verði, en stendur til boða í dag," sagði Pálmi.
Birgir Jónsson, forstjóri Iceland Express, sagði að félagið sæi mikil tækifæri fyrir félagið í innanlandsflugi hér á landi. "Við sjáum að verðlagningin á innanlandsfluginu í dag er út úr öllum kortum og treystum okkur til að að bjóða umtalsvert lægra verð, ég slæ á svona 30 til 40% lægra verð en það sem í boði er hjá Flugfélagi Íslands," sagði Birgir.
Pálmi sagði að stjórn Iceland Express og forstjóri væru jafnframt að undirbúa að hefja flug á vegum félagsins til Boston og New York á næsta ári.