Sækist eftir fyrsta sæti Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi

Kristinn H. Gunnarsson.
Kristinn H. Gunnarsson.

Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður hefur ákveðið að gefa kost á sér í prófkjöri Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Þar mun hann sækjast eftir fyrsta sæti á framboðslista flokksins. Hann hefur setið á Alþingi samfleytt síðastliðin fimmtán ár, eða frá árinu 1991.

Kristinn segir í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér að framboðið sé grundvallað á þeim höfuðatriðum í stefnu Framsóknarflokksins að setja manngildi ofar auðgildi og vinna að framgangi hófsamrar og umbótasinnaðrar stefnu. Hann segist vera sannfærður um að með staðfestu í þeim efnum munu framsóknarmenn endurheimta sinn fyrri styrk og fyrir því muni hann beita sér af alefli verði honum falið forystuhlutverk í prófkjörinu framundan.

„Verkefni okkar er sem fyrr að efla velferðarsamfélagið eins og frekast er unnt og grundvalla það á fjölbreyttu og samkeppnishæfu atvinnulífi landsmanna. Atvinna, þjónusta og jöfnun lífskjara eru veigamestu viðfangsefni hinnar líðandi stundar ásamt efnahagslegum stöðugleika sem öllum er orðið ljóst að er lífsspursmál fyrir þjóðina alla.

Síðustu ár hafa verið umbrotatímar með mikilli verðmætasköpun og framförum á mörgum sviðum. En markaðsþjóðfélaginu og einkavæðingunni hefur fylgt ójafnari dreifing verðmætanna en áður. Mikil auðæfi hafa safnast á fáar hendur en alltof margir búa við kröpp kjör. Við þurfum tafarlaust að auka jöfnuð og huga sérstaklega að kjörum aldraðra og öryrkja. Við þurfum að jafna aðstæður með hliðsjón af búsetu, aðgengi að menntun og almennum lífsgæðum barna og fullorðinna. Við þurfum að styðja af alefli við ungt fólk sem er að hefja búskap og tryggja bæði öldruðum og sjúkum fyrsta flokks aðbúnað og umönnun. Til þessa á að horfa þegar við mörkum stefnuna fyrir komandi Alþingiskosningar,“ segir Kristinn í yfirlýsingunni.

Á meðal trúnaðar- og stjórnmálastarfa: Bæjarfulltrúi í Bolungarvík 1982-1998, formaður Verslunarmannafélags Bolungarvíkur 1982-1992, í stjórnskipaðri nefnd um sameiningu sveitarfélaga frá 1991, í framkvæmdastjórn, landsstjórn og miðstjórn Framsóknarflokksins frá 1999-2003, formaður þingflokks framsóknarmanna 1999 – 2003,formaður stjórnar Byggðastofnunar 2000 – 2002 og formaður stjórnar Tryggingastofnunar ríkisins frá 2004. Ég hef setið á Alþingi frá árinu 1991 og hef verið þingmaður framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi frá árinu 2003. á Alþingi hef ég m.a. setið í félagsmálanefnd, allsherjarnefnd, fjárlaganefnd, sérnefnd um fjárreiður ríkisins, sjávarútvegsnefnd, menntamálanefnd, landbúnaðarnefnd, efnahags- og viðskiptanefnd,sérnefnd um stjórnarskrármál, iðnaðarnefnd og samgöngunefnd.

Kristinn er kvæntur Elsu Björk Friðfinnsdóttur hjúkrunarfræðingi og þau eiga fimm börn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert