Rúandíski rithöfundurinn Immaculée Ilibagiza heldur fyrirlestur og situr fyrir svörum um lífsreynslu sína og störf í Miðstöð Sameinuðu þjóðanna, Laugavegi 42, næstkomandi þriðjudag 24. október kl. 12.10–13.00. Ilibagiza er höfundur bókarinnar Ein til frásagnar en þar segir höfundurinn frá lífi sínu í Rúanda og ótrúlegri lífsreynslu sinni þegar útrýmingarherferð Hútúa á hendur Tútsum brast á í landinu árið 1994.
Morðæðið stóð í þrjá mánuði og kostaði nærri eina milljón manna lífið. Immaculée lifði blóðbaðið af því í 91 dag sat hún ásamt sjö öðrum konum þögul í hnipri í þröngri baðherbergiskytru sóknarprests nokkurs meðan hundruð morðingja með sveðjur á lofti leituðu þeirra.
Immaculée býr nú á Long Island með manni sínum og tveimur börnum en fjölskylda hennar er með henni hér á landi. Immaculée starfar fyrir Sameinuðu þjóðirnar í Bandaríkjunum og hefur sett á laggirnar stofnun til að hlúa að þeim sem þjást af völdum þjóðarmorða og styrjalda. Frá þessu segir í tilkynningu frá JPV útgáfunni.