Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, kom inn á hlerunarmál þau sem nú eru mikið í umræðunni á opnum fundi í Valhöll. Segir hann að ásökun Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra, um að sími hans hafi verið hleraður, gríðarlega alvarlega ásökun sem beinist óbeint að samstarfsaðila Jóns Baldvins í ríkisstjórn, það er Sjálfstæðisflokknum.
Segir Geir að reynt sé að gera forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins ótrúverðuglega og bókstaflega sé reynt að koma ábyrgð á Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra.
Að sögn Geirs er aðförin sérstaklega ógeðfelld og það læðist að honum sá grunur að óprúttnir menn séu að reyna að koma höggi á Björn fyrir prófkjörið sem fer fram um næstu helgi. Geir sagði að sjálfstæðismenn megi ekki láta þetta viðgangast og þá allra síst gagnvart einum traustasta og besta ráðherra sem við sjálfstæðismenn höfum haft, að sögn Geirs.
Geir kom inn á orð Össurar Skarphéðinssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, í fjölmiðlum á undanförnum misserum um varnarmál. Segir hann ýmislegt sem Össur hafi látið frá sér fara vera tóma fjarstæðu Geir sagði að samstarf við dómsmálaráðherra hafi verið óaðfinnanlegt ólíkt því sem Össur hafi haldið fram í fjölmiðlum. Segir Geir að hlerunarmálið sé tvískipt. Annars vegar það sem snertir kaldastríðstímabilið. Hvað það varðar þá sé sérstakur hópur manna sem er að vinna að því hvernig hægt verði að opna þau mál með því að hleypa fræðimönnum í gögn sem til eru um kaldastríðstímabilið.
Utanríkisráðherrann fyrrverandi, Jón Baldvin, heldur því fram að síminn hans hafi verið hleraður, að sögn Geirs og svo sé annar maður sem vann með honum kominn fram í dagsljósið með að hans sími hafi einnig verið hleraður.
Geir segir að það hafi orðið til þess að ríkissaksóknari kom af stað rannsókn eins og auðvitað á að gera í málum sem þessum. Geir segist hins vegar hafa velt því fyrir sér hvers vegna Jón Baldvin sem var stjórnvald á þessum tíma lét ekki aðra í ríkisstjórninni vita af þessu.
Hlutafélag stofnað um mannvirki á flugvallarsvæðinu
Geir minntist þess í upphafi fundar í Valhöll í morgun að nú væru rúmir sex mánuðir síðan hann greindi brotthvarfi bandaríska hersins frá Íslandi á fundi í Valhöll. Margt hafi gerst á þeim tíma og segir Geir að búið sé að ryðja óvissunni úr vegi og Íslendingar búnir að koma málum þannig að margar þjóðir vildu vera í okkar sporum.
Geir segir að á Íslandi verði ekki framar föst viðvera bandarísks hers. En í samkomulaginu sem var nýverið undirritað þá komi fram að Bandaríkin munu bregðast skjótt við ef Íslandi standi einhver ógn sem við ráðum ekki við, að sögn Geirs. Hann sagði að það skyti skökku við að það sem stjórnarandstaðan fetti fingur út í hvað varðar samkomulagið væri að varnaráætlunin er leynileg. Geir segir að ef það væri upplýst þá myndi óvinurinn vita hvernig Ísland ætlaði að haga vörnum sínum.
Geir segir að á þriðjudag verði hlutafélag stofnað um að koma mannvirkjum á Keflavíkurflugvelli í borgaralegt arðbært form. Til að mynda hefur það verið gert í nágrenni Frankfurt í Þýskalandi þar sem Hahn flugvöllurinn sem Iceland Express flýgur á er gamall herflugvöllur.
Hvað varðar hreinsun á flugvallarsvæðinu þá megi ekki gleyma því að árið 1989 lét þáverandi utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, gera samning um að Bandaríkjamenn myndu greiða fyrir nýja vatnsveitu í stað þeirrar gömlu sem þá var ónýt. En með því væru Bandaríkjamenn lausir allra mála hvað varðar hreinsun í tengslum við vatnsveituna. Segir Geir ljóst að þáverandi utanríkisráðherra hafi því haft eitthvað annað að gera árið 1989 en að láta leita upplýsinga um samráðherra sinn.