Greitt fyrir bílastæði með skafmiðum og kortum

Framkvæmdaráð Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum í dag að fela Bílastæðasjóði Reykjavíkur að útfæra nýjar leiðir til að auðvelda viðskiptavinum sínum að greiða fyrir bílastæði í miðborginni. Á boðstólum verða tímabundin kort og skafmiðar, auk þess sem unnt verður að greiða fyrir notkun stæða með kreditkortum.

Í tilkynningu kemur fram að gert er ráð fyrir að fjöldi almennra notenda gjaldskyldra bílastæða muni fagna því að geta greitt með kreditkortum í greiðsluvélar bílahúsa og miðamæla utanhúss.

Uppsetning nýrra miðamæla sem eru búnir lesurum fyrir kreditkort hefst á næstu vikum, en ráðgert er að nýju kortin og skafmiðarnir komi á markað í upphafi næsta árs.

„Meðal greiðslumöguleikanna sem boðið verður upp á er fjölbreytt úrval skafmiða, en með þeim geta viðskiptavinir keypt fyrirfram ákveðinn gildistíma við stöðumæli og þarf aðeins að skafa af rétta dagsetningu og tíma á miðanum þegar á að nota hann. Skafmiðinn er hafður sýnilegur í mælaborði bifreiðar sem lagt er í gjaldskylt stæði, þannig að starfsmenn Bílastæðasjóðs geti lesið dag- og tímasetningu á honum. Hægt verður að kaupa skafmiða sem gilda í bílastæði með allt frá eins klukkutíma gildistíma.

Einnig verða í boði viku- og mánaðarkort sem gilda við stöðu- og miðamælastæði, en með þeim geta þeir viðskiptavinir Bílastæðasjóðs sem sækja miðborgina í lengri tíma í senn valið um mismunandi fyrirframgreidd kort sem höfð verða sýnileg í mælaborði bifreiðarinnar," samkvæmt tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert