Þóttist vera meðvitundarlaus eftir umferðaróhapp

Lög­reglu­menn geta lent í ótrú­leg­ustu aðstæðum og verða ávallt að vera við öllu bún­ir. Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá lög­regl­unni í Reykja­vík barst til­kynn­ing um um­ferðaró­happ í aust­ur­bæn­um um helg­ina þar sem bíll hafði farið út af veg­in­um og hafnað á vegg.

Ökumaður­inn var með beltið spennt en loft­púði í stýri bíls­ins hafði sprungið út. Ekki var að sjá neina áverka á öku­mann­in­um en hann virt­ist meðvit­und­ar­laus þegar að var komið. Hann var því flutt­ur á slysa­deild til frek­ari rann­sókn­ar en bif­reið hans var fjar­lægð af vett­vangi.

Á slysa­deild kom hins veg­ar í ljós að maður­inn var alls ekki meðvit­und­ar­laus. Hann hafði verið með leik­ara­skap all­an tím­ann og reynt að villa um fyr­ir lög­regl­unni. Ekki er fylli­lega ljóst hvað vakti fyr­ir mann­in­um en þegar hugað var að sár­um hans fannst áfeng­isþefur, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá lög­reglu. Því var brugðið á það ráð að taka úr hon­um tvö blóðsýni í þágu rann­sókn­ar máls­ins.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert