Mótmælin halda áfram

Frá hvalskurðinum í gær
Frá hvalskurðinum í gær Ómar

Mótmæli halda áfram að streyma inn til íslenskra stjórnvalda vegna þeirrar ákvörðunar að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni. Þá hafa Morgunblaðinu borist þúsundir skipulagðra mótmælabréfa í gegnum dýraverndunarsamtökin IFAW þar sem íslenskir ráðamenn eru hvattir til að láta af veiðunum.

Í blaðinu í gær birtist frétt þess efnis að hvalveiðar Íslendinga í atvinnuskyni hefðu ráðið því að sjávarútvegsráðstefnan Groundfish Forum verður ekki haldin hér á landi að ári, heldur í Noregi. Að mati Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra er fréttin mótsagnakennd. "Hún fjallar annars vegar um að það hafi ráðið úrslitum um að þessi ráðstefna var ekki haldin hér á landi að við værum að byrja þessar veiðar, en síðar er í fréttinni sagt frá því að ráðstefnan verði haldin í Noregi, sem er eins og allir vita öflugt hvalveiðiland, sem hefur stundað hvalveiðar undanfarin 10 ár í margfalt meiri mæli en við Íslendingar erum að gera," segir hann.

Skýla sér á bak við veiðarnar

Umhverfisráðherra Svíþjóðar kallar sendiherra á sinn fund

Að mati Baldvins Jónssonar, framkvæmdastjóra verkefnisins Sjálfbært Ísland í Bandaríkjunum, geta veiðarnar haft áhrif á sölu íslenskra landbúnaðarafurða þar í landi. "Við heyrðum í gegnum búðirnar að fólk er að koma í stórum stíl og vekja athygli á því að nú hafi Íslendingar hafið hvalveiðar á ný. Búðirnar eru tvístígandi í málinu, því að það eru auðvitað ekki bændur sem taka þessa ákvörðun. Við vonum að þeir njóti sannmælis fyrir það."

"Það sem er óþægilegast er að við höfum verið að kynna Ísland sem náttúruperlu og reynum að hafa forystu á sviði umhverfismála, hvort sem eru sjálfbærir búskaparhættir eða sjálfbærar fiskveiðar, eða orkumál," segir Baldvin.

Feitari og sverari en fyrsti hvalurinn

STÓR hópur gesta kom til að fylgjast með því er hvalveiðiskipið Hvalur 9 kom með 23 metra langa langreyðarkú að landi í hvalstöðinni í Hvalfirði skömmu eftir klukkan 14 í gær. Ekki var mikið um mótmælendur að sögn starfsmanns Hvals hf. Hvalurinn var talsvert fitumeiri og sverari en fyrsta langreyðurin sem áhöfnin á Hval 9 skutlaði um helgina. Nokkur bræla var á veiðislóð en hvalurinn var skotinn suðvestur af Garðskaga um klukkan 14 á mánudag. Að sögn Kristjáns Loftssonar, forstjóra Hvals hf., var um að ræða fimmtíu ára gamlan hval og segist Kristján þess fullviss að markaður sé fyrir afurðirnar af honum. Um útflutningsverðmæti er þó ekki hægt að segja fyrr en að loknum efnarannsóknum vegna kvikasilfurs og PCB og fleiri hugsanlegra efna í kjötinu en þær rannsóknir munu taka 3-4 mánuði að sögn Kristjáns. Vonir voru bundnar við að hægt væri að ljúka hvalskurðinum á planinu í Hvalfirði fyrir miðnætti í gær.

Um 9 þúsund bréf bárust

UM NÍU þúsund mótmælabréf gegn hvalveiðum Íslendinga bárust Morgunblaðinu í gær með tölvupósti gegnum dýraverndunarsamtökin IFAW. Bréfin innihalda meira og minna sama texta og bréf sem samtökin hafa sent forsætisráðherra og sendiráðum Íslands. Eru þau undirrituð af fólki sem lýst hefur sig andsnúið hvalveiðum á heimasíðu samtakanna.

Í textanum segir meðal annars að hvalveiðarnar skaði alþjóðlegt orðspor Íslendinga og stuðli að útrýmingu dýrategundarinnar. Þá segir að hvalveiðar í atvinnuskyni séu fornaldarlegur og tilgangslaus atvinnuvegur og muni einungis skaða Ísland í efnahagslegu tilliti. Í textanum er einnig fullyrt að langreyðurin sé í útrýmingarhættu en þegar hafa verið skotnir tveir hvalir af þeirri tegund. Klykkt er út með því að Íslendingar séu upp til hópa meðvitaðir um umhverfismál og að veiðarnar séu sérsniðnar að hagsmunum ákveðins hóps en ekki þörfum íslenskra borgara.

Í hnotskurn
» Hvalaafurðir Hvals hf. verða frystar hjá HB Granda á Akranesi.
» Talsverður hópur gesta kom til að fylgjast með hvalskurðinum í gær en engir mótmælendur voru á staðnum að sögn starfsmanns Hvals hf.
» Veiðiskipið Hvalur 9 hélt aftur út til veiða skömmu eftir löndun í Hvalfirði í gær.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert