Mótmæli halda áfram að streyma inn til íslenskra stjórnvalda vegna þeirrar ákvörðunar að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni. Þá hafa Morgunblaðinu borist þúsundir skipulagðra mótmælabréfa í gegnum dýraverndunarsamtökin IFAW þar sem íslenskir ráðamenn eru hvattir til að láta af veiðunum.
Í blaðinu í gær birtist frétt þess efnis að hvalveiðar Íslendinga í atvinnuskyni hefðu ráðið því að sjávarútvegsráðstefnan Groundfish Forum verður ekki haldin hér á landi að ári, heldur í Noregi. Að mati Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra er fréttin mótsagnakennd. "Hún fjallar annars vegar um að það hafi ráðið úrslitum um að þessi ráðstefna var ekki haldin hér á landi að við værum að byrja þessar veiðar, en síðar er í fréttinni sagt frá því að ráðstefnan verði haldin í Noregi, sem er eins og allir vita öflugt hvalveiðiland, sem hefur stundað hvalveiðar undanfarin 10 ár í margfalt meiri mæli en við Íslendingar erum að gera," segir hann.
Að mati Baldvins Jónssonar, framkvæmdastjóra verkefnisins Sjálfbært Ísland í Bandaríkjunum, geta veiðarnar haft áhrif á sölu íslenskra landbúnaðarafurða þar í landi. "Við heyrðum í gegnum búðirnar að fólk er að koma í stórum stíl og vekja athygli á því að nú hafi Íslendingar hafið hvalveiðar á ný. Búðirnar eru tvístígandi í málinu, því að það eru auðvitað ekki bændur sem taka þessa ákvörðun. Við vonum að þeir njóti sannmælis fyrir það."
"Það sem er óþægilegast er að við höfum verið að kynna Ísland sem náttúruperlu og reynum að hafa forystu á sviði umhverfismála, hvort sem eru sjálfbærir búskaparhættir eða sjálfbærar fiskveiðar, eða orkumál," segir Baldvin.
Í textanum segir meðal annars að hvalveiðarnar skaði alþjóðlegt orðspor Íslendinga og stuðli að útrýmingu dýrategundarinnar. Þá segir að hvalveiðar í atvinnuskyni séu fornaldarlegur og tilgangslaus atvinnuvegur og muni einungis skaða Ísland í efnahagslegu tilliti. Í textanum er einnig fullyrt að langreyðurin sé í útrýmingarhættu en þegar hafa verið skotnir tveir hvalir af þeirri tegund. Klykkt er út með því að Íslendingar séu upp til hópa meðvitaðir um umhverfismál og að veiðarnar séu sérsniðnar að hagsmunum ákveðins hóps en ekki þörfum íslenskra borgara.