Tæplega fertugur karlmaður var tekinn fyrir ölvunarakstur um miðjan dag í gær í austurborg Reykjavíkur. Áður hafði hann ekið á umferðarskilti og forðað sér af vettvangi. Með góðri liðveislu ónefnds borgara tókst að ná manninum sem var ekki einn á ferð. Sonur mannsins, sem er 11 ára, sat í framsæti bifreiðarinnar í ökuferðinni.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu sakaði feðgana ekki. Við frekari rannsókn lögreglunnar kom jafnframt í ljós að faðirinn var þegar sviptur ökuleyfi. Þá reyndist bíll hans ótryggður og því voru skrásetningarnúmerin fjarlægð.
Í nótt var svo liðlega tvítug stúlka tekin fyrir ölvunarakstur í útjaðri borgarinnar. Bíll hennar varð bensínlaus en þegar lögreglan kom á staðinn þótt nokkuð ljóst að stúlkan var ölvuð. Í fyrstu sagði hún ósatt um nafn sitt en þegar hið sanna kom í ljós reyndist stúlkan aldrei hafa öðlast ökuréttindi.