Pétri H. Blöndal falið eftirlit með fjárreiðum ÖSE

Pétur Blöndal.
Pétur Blöndal.

Pétur H. Blöndal, alþingismaður, hefur tekið að sér að hafa eftirlit með fjármálum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) sem sérstakur fulltrúi ÖSE-þingsins að ósk Göran Lennmarker, forseta þingsins. Um nýtt starf er að ræða og er því ætlað að tryggja að þingið fái aukið vægi í umfjöllun um fjárreiður ÖSE, í samræmi við eftirlitshlutverk þjóðþinga með fjárveitingum.

Þessi ósk kemur í kjölfar umræðu sem Péturs hefur leitt innan ÖSE um gagnsærri stjórnsýslu og aðhalds í rekstri. Fyrsta verk hans verður að móta starfið og fara yfir fjárhagsáætlun ÖSE fyrir árið 2007, sem nemur um 15 milljörðum króna, að því er segir í tilkynningu.

Alls eiga 56 þjóðþing ríkja í Evrópu og Norður-Ameríku aðild að ÖSE-þinginu, en hlutverk þess er m.a. að meta árangur af starfi ÖSE og móta starfsstefnu stofnunarinnar. Þá hefur kosningaeftirlit verið eitt helsta verkefni þingsins frá upphafi og hefur sú starfsemi aukist mjög að umfangi síðustu ár. Samhliða auknum umsvifum ÖSE hefur farið fram umræða um nauðsyn þess að ÖSE-þingið hafi lýðræðislegt eftirlit með nýtingu þeirra fjármuna sem lagðir eru til stofnunarinnar á fjárlögum aðildarríkja. Pétur hefur tekið virkan þátt í þeirri umræðu, sem hefur m.a. skilað sér í bættri upplýsingagjöf um fjárreiður ÖSE til þingsins, samkvæmt tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert