Sóknir hvattar til að sinna vinaheimsóknum

Frá Kirkjuþinginu í Grensáskirkju.
Frá Kirkjuþinginu í Grensáskirkju.

Kirkjuþing samþykkti í morgun stefnumótun á sviði kærleiksþjónustu og hjálparstarfs þar sem sóknir eru m.a. hvattar til að huga sérstaklega að þeim þætti í þjónustu kirkjunnar er lítur að stuðningi við fólk í erfiðum aðstæðum. Þá eru sóknir hvattar til að leggja sérstaka áherslu á vinaheimsóknir til þeirra sem eru einangraðir og til samstarfs á þessu sviði milli safnaða, við stofnanir og félagasamtök. einnig er minnt á nauðsyn þess að sóknirnar leggi fé í þetta starf.

Kirkjuþing 2006 stendur nú yfir í Grensáskirkju en stefnt er að því að ljúka þinginu á hádegi í dag.

Samkvæmt því sem fram kemur í yfirlýsingu frá Biskupsstofu er stefnumótun á sviði Kærleiksþjónustu liður í að framfylgja Stefnu- og starfsáherslum Þjóðkirkjunnar sem samþykkt voru á kirkjuþingi 2003. Samkvæmt henni verður sérstaklega vakin athygli á kærleiksþjónustu kirkjunnar starfsárið 2006 – 2007 og hvatt til verkefna á því sviði.

Þingsályktun Kirkjuþings 2006 um stefnu Þjóðkirkjunnar á sviði kærleiksþjónustu og hjálparstarfs fer hér á eftir:

Kirkjuþing 2006 minnir á að í Stefnu og starfsáherslum Þjóðkirkjunnar 2004-2010 er megináherslan á kærleiksþjónustu og hjálparstarf árið 2006-07 undir yfirskriftinni: „Fjölþætt þjónusta – opin, virk og gefandi“.

Kirkjuþing hvetur til þess að verkefni á sviði kærleiksþjónustu fái aukið vægi í sóknum, prófastsdæmum og hjá kirkjustjórninni. Samstarf við sérþjónustu og stofnanir kirkjunnar, svo og félagasamtök, sem vinna á sviði kærleiksþjónustu, hjálparstarfs og kristniboðs, verði styrkt. Hugað verði sérstaklega á starfsárinu 2007 að vinaheimsóknum (heimsóknarþjónustu) svo og stuðningi við fólk í erfiðum aðstæðum.

Kirkjuþing minnir einnig á ályktun Kirkjuþings 2004 um stöðu og málefni aldraðra.

Kirkjuþing samþykkir eftirfarandi stefnu og starfsáherslur:
A. Starf kirkjunnar á sviði kærleiksþjónustu, hjálparstarfs og kristniboðs verði aukið í sóknum, prófastsdæmum og hjá kirkjustjórninni.
Sóknarnefndir beiti sér fyrir því að:
1. Umfjöllun eigi sér stað um hlutverk kærleiksþjónustunnar og þróun.
2. Gerð sé áætlun um þróun og framkvæmd þjónustunnar á grundvelli stefnu Þjóðkirkjunnar 2004-2010 með hliðsjón af þarfagreiningu.
3. Við gerð fjárhagsáætlana sé þess gætt að kærleiksþjónusta hafi nægjanlegan mannafla og fé til að sinna starfseminni.
4. Starfsfólk njóti fræðslu og handleiðslu til að auka gæði þjónustunnar, sbr. starfsmannastefnu Þjóðkirkjunnar.
5. Tekin verði upp samskot í messum í öllum kirkjum.
6. Sérstök verkefni á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar og Sambands íslenskra kristniboðsfélaga verði styrkt. Hér er til dæmis átt við stuðning við fósturbörn, þrælabörn, prestsmenntun og kirkjubyggingar.
Hugað verði að því með hvaða hætti sóknir geti styrkt samstarf við sérþjónustu og stofnanir kirkjunnar, svo og félagasamtök, sem vinna á sviði kærleiksþjónustu, hjálparstarfs og kristniboðs.
B. Sóknir leggi sérstaka áherslu árið 2007 á framtíðaruppbyggingu eftirfylgdar og vinaheimsókna. Þetta skal gert með því að:
1. Greina þörfina á hverjum stað.
2. Hafa samstarf við aðra söfnuði, prófastsdæmi, stofnanir og félagasamtök og kanna hvar unnt er vinna að þessu verkefni svæðisbundið.
3. Fela ákveðnum aðila ábyrgð á umsjón verkefnisins. Í stórum sóknum er nauðsynlegt að ráða starfsfólk. Jafnframt er æskilegt að þjálfa sjálfboðaliða sem sæki námskeið sem Biskupsstofa og prófastsdæmi bjóða upp á.
4. Héraðsnefndir styðji og styrki söfnuði fjárhagslega til að sinna eftirfylgd og vinaheimsóknum.
D. Kirkjuráð hugi að skipulagi sérþjónustu kirkjunnar og samhæfingu. og skipi nefnd um kærleiksþjónustu kirkjunnar til að fá heildarsýn yfir kærleiksþjónustuna og samhæfa hana. Staða sérþjónustunnar í skipulagi kirkjunnar verði skilgreind. Skilgreint verði hvaða þjónusta sé grunnþjónusta í sókn, prestakalli og sérþjónustu. (Stefna og starfsáherslur þjóðkirkjunnar 2004-2010 bls. 5)
Greinargerð
Stefna Þjóðkirkjunnar á sviði kærleiksþjónustu og hjálparstarfs
I.
1. Grundvöllur og skilgreiningar
Í Stefnu og starfsáherslum þjóðkirkjunnar 2004-2010 er í upphafi kaflans um kærleiksþjónustu og hjálparstarf (6. kafli) minnt á orð Jesú er hann segir: Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig (Matt. 25:35).
Kærleiksþjónusta og hjálparstarf er skilgreint með þessum orðum: “Með kærleiksþjónustu er átt við það hlutverk kirkjunnar að bera umhyggju fyrir náunganum og koma honum til hjálpar” (bls.9.)
Í markmiðslýsingu segir:
„Þjónusta kirkjunnar birtir kristna trú og kærleika í verki. Hún þjónar í anda Jesú Krists þeim sem þarfnast hjálpar. Kirkjan hlustar eftir þörfinni og leitar þeirra sem helst þarfnast umhyggju og stuðnings. Kirkjan starfar með öðrum sem sinna hjálparstarfi og líknarþjónustu og tekur þátt í þverfaglegu samstarfi á sviði sálgæslu, áfallahjálpar og aðhlynningar sjúkra.“ (bls.9).
Hér skal gerð grein fyrir nokkrum þáttum sem lýsa kærleiksþjónustu og hjálparstarfi í kirkjulegu starfi:
a) Tilgangur
Tilgangur kærleiksþjónustunnar er að miðla kristinni trú í verki með umhyggju og nærveru.
b) Trúverðugleiki
Kirkjan vill vera trúverðug með því að starfa í samræmi við boðskap sinn. Kærleiksþjónusta kirkjunnar felst í því að mæta fólki í Krists stað, í nafni og umboði Jesú Krists, sýna því þá alúð, virðingu og umhyggju sem Kristur sjálfur hefði gert. Þjónustan hvílir á því að miðla kærleika til annarra og einkum þeirra sem virðast sett hjá og þarfnast stuðnings. Hún byggir á því að við erum öll systkin í Kristi og eigum því að gæta hvers annars og skipta því sem lífið hefur að bjóða réttlátlega á milli allra.
c) Miskunnsemi, réttlæti og samstaða
Kærleiksþjónusta birtist meðal annars í því að sýna miskunnsemi og standa með öðrum í erfiðleikum. Sýna samstöðu með þeim sem líða og þjást og berjast fyrir réttlæti á opinberum vettvangi jafnt innlendum sem alþjóðlegum.
d) Að gefa og þiggja
Lífið er margbrotið og allir komast í þá aðstöðu að þarfnast hjálpar. Enginn er alltaf þiggjandi því öll höfum við margt að gefa hvert öðru. Þegar við hjálpumst að og berum hvers annars byrðar erum við að lifa lífinu eins og kristin trú boðar.
e) Kærleiksþjónusta og helgihald
Í helgihaldi kirkjunnar er kirkjan sýnileg sem biðjandi, boðandi og þjónandi kirkja. Helgidómurinn er griðland hins trúaða og helgihald er samfélag þar sem umhyggja, virðing og kærleikur er tjáð í orðum og athöfnum. Guðsþjónustan heldur áfram út úr helgidómnum yfir á vettvang dagsins þar sem trúin verkar í kærleika og umhyggju fyrir lífinu og náunganum. Það er guðsþjónusta hins daglega lífs.
f) Kærleiksþjónusta og önnur hlutverk kirkjunnar
Kærleikur er hinn rauði þráður í boðskap Krists. Kærleiksþjónustan skarast því við öll önnur hlutverk kirkjunnar. Um skyldur gagnvart náunganum sagði Jesús: „Það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér“ (Matt. 25.40). Við erum erindrekar Krists, sbr. kristniboðsskipunina (Matt. 28.18-20).
Ástæða þess að kirkjan hvetur alla til að sýna náunganum umhyggju byggir meðal annars á orðum Jesú úr tvöfalda kærleiksboðorðinu: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (Matt. 22.39). Kirkjan sinnir kærleiksþjónustu vegna þess að Jesús Kristur beinir sjónum okkar að náunganum og hvetur til góðra og uppbyggilegra verka í þágu hans. Með þeim hætti fleytir kristinn maður kærleika hans til samfélagsins og er sem erindreki hans.
g) Kærleiksþjónusta og velferðarkerfið
Kærleiksþjónusta kirkjunnar kemur aldrei í staðin fyrir þá þjónustu sem samfélaginu er skylt að veita. Kærleiksþjónusta er viðbót við þjónustu samfélagsins og er stunduð í samstarfi en ekki í samkeppni við hana.
2. Hverjir eiga að stunda kærleiksþjónustu?
a) Almennt
Öll þau sem skírð eru eiga að sinna kærleiksþjónustu. Í daglegu lífi mætum við fólki sem þarfnast umhyggju. Hlýlegt viðmót, símtal, heimsókn til þess sem er einangraður vegna sjúkdóms eða annarra erfiðleika er verðug þjónusta sem hver einstaklingur getur veitt.
b) Skipulögð þjónusta.
Til þess að þjónustan sé markviss skipuleggur kirkjan margvíslegt starf. Skipulagið er unnið út frá einingum kirkjunnar þ.e. sóknum, prófastsdæmum, sérþjónustu og stofnunum. Þau sem leiða kærleiksþjónustuna eru einkum prestar og djáknar en allir starfsmenn Þjóðkirkjunnar vinna að kærleiksþjónustu með einum eða öðrum hætti.
Kirkjan sinnir hjálparstarfi og kristniboði innan lands og utan, og veitir sérstaka þjónustu við fjölskyldur í vanda. Sjá nánar í yfirliti hér að neðan..
II..
Yfirlit um kærleiksþjónustu og hjálparstarf.
Kirkjan skipuleggur margs konar þjónustu meðal allra aldurshópa bæði á Íslandi og í öðrum löndum. Nefndir og ráð eru að störfum sem og stofnanir er sinna sérstaklega kærleiksþjónustu loks eru sérþjónustuprestar og djáknar starfandi á þessu sviði:.
a) Nefndir sem einkum starfa að kærleiksþjónustu: ellimálanefnd, fagráð um meðferð kynferðisbrotamála, hópslysanefnd, kristniboðs- og hjálparstarfsnefnd, starfshópur gegn ofbeldi gagnvart konum. Þá starfa einnig hópar og nefndir innan sókna og prófastsdæma.
b) Sérþjónustuprestar: Til dæmis prestar á sjúkrahúsum, prestar fatlaðra, fanga, heyrnarlausra, innflytjenda, vímuvarna, að Sólheimum í Grímsnesi og í skólum. Starf presta erlendis, hefur ávallt falið í sér margþætta kærleiksþjónustu einkum við sjúklinga og aðstandendur þeirra.
c) Djáknar hjá sóknum, félagasamtökum og stofnunum svo sem á sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum og í skólum.
d) Stofnanir kirkjunnar: Fjölskylduþjónusta kirkjunnar og Hjálparstarf kirkjunnar.
e) Samstarf við aðra aðila: Kirkjan á aðild að Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, auk þess sem hún styður við starfsemi margra aðila sem starfa á þessu sviði, svo sem Samband íslenskra kristniboðsfélaga og Landspítala Háskólasjúkrahús. Þá hefur kirkjan stutt Kvennaathvarfið.
III.
Það sem hér fer á eftir eru einkum áhersluþættir umfram hina almennu þjónustu sem veitt er í öllum sóknum landsins:
Hér skulu nefnd þau verkefni sem er að finna í Stefnu og starfsáherslum Þjóðkirkjunnar 2004-2010 (6. kafla) og gerð grein fyrir hvernig þeim er sérstaklega sinnt í dag innan kirkjunnar:
6.2 Verkefni
Við viljum leita uppi og styðja með virkum hætti hópa eða einstaklinga í hverri sókn sem skortir stuðning og samfélag en njóta ekki sérþjónustu kirkjunnar. Þessir hópar eru meðal annars:
• Einstæðingar
Skipulagðar vinaheimsóknir, einkum meðal aldraðra, er víða á vegum sókna og prófastsdæma.
• Einstæðir foreldrar
Hjálparstarf kirkjunnar veitir þeim þjónustu sem eftir leita og sumar sóknir veita aðstoð en skipulegt starf sem beinist að vanda þessa hóps er ekki fyrir hendi.
• Langveikir og aðstandendur þeirra
Skipulegt starf sem beinist að vanda þessa hóps er ekki fyrir hendi en þó styðja margir þjónar kirkjunnar þetta fólk m.a. á sjúkrahúsum
• Fólk sem þarfnast áfallahjálpar
Viðbragðaáætlun kirkjunnar hefur verið samþykkt og hópslysanefnd vinnur að framkvæmd hennar.
• Þolendur eineltis
Samstarf við skóla, m.a. Lífsleikni og Vinaleiðin
• Fólk sem glímir við misnotkun vímuefna og afleiðingar hennar Í mörg ár hefur verið samstarf við AA samtökin um notkun á húsnæði kirkna og prestar veita þjónustu einkum með sálgæslu og viðtölum.
Fjölskylduþjónusta kirkjunnar sinnir ráðgjöf á þessu sviði. Kirkjuþing samþykkti árið 1998 “Stefna Þjóðkirkjunnar í vímuefnavandanum”. Þá er sérþjónustuprestur er að störfum á þessu sviði.
• Við viljum efla kærleiksþjónustu í samstarfi við aðra er beinist að öldruðum, einmana og sjúkum, meðal annars með því að:
o Virkja söfnuðinn í eftirfylgd og vinaheimsóknum og þjálfa sjálfboðaliða, Víða er samstarf sókna við félagsþjónustu í sveitarfélögum og heilbrigðisyfirvöld um heimsóknarþjónustu. Þjálfun sjálfboðaliða fer fram á námskeiðum á vegum Biskupsstofu og prófastsdæma.
• Styrkja stöðu sálgæslunnar innan sjúkrastofnana og hjúkrunarheimila.
Sjúkrahúsprestar og djáknar eru starfandi á vegum kirkju og í auknum mæli á vegum stofnana, þar sem ríkur þáttur í starfi þeirra er sálgæsla.
• Við viljum styðja við og efla sálgæslu og leggja áherslu á:
o Stuðning við syrgjendur Sorgarhópar eru starfandi í sóknum en efla þarf það starf að nýju
Samtökin „Ný Dögun“ og fleiri slík samtök hafa sinnt þessu verkefni og talsverð tengsl hafa verið við kirkjuna
Á Kirkjuþingi 2006 var samþykkt tillaga um skipulag starfs vegna eftirfylgdar við fólk í erfiðum aðstæðum.
o Ungar fjölskyldur og barnafólk
o Hjón og fólk í sambúð
Foreldramorgnar eru víða haldnir reglubundnir í sóknum þar sem áherslan er á samfélag
Fjölskylduþjónusta kirkjunnar sinnir viðtölum við fjölskyldur sem er beinn stuðningur við sálgæsluviðtöl presta og djákna
Hjónafræðsla og hjónanámskeið eru til sérstakrar skoðunar hjá fræðslusviði Biskupsstofu
• Við viljum efla vitund safnaða um hjálparstarf og kristniboð og ábyrgð þeirra á því með því að: o Leggja áherslu á að gefa af tíma sínum og fjármunum í þágu starfsins Samskot í messum er nýjung í nokkrum sóknum og vonandi taka fleiri það upp.
Sumar sóknir styðja HK og SÍK með beinum fjárframlögum
Einstaka sóknir hafa stofnað áhugahópa um kristniboð og hjálparstarf.
Samband íslenskra Kristniboðsfélaga, SÍK, á samstarf við presta og sóknir landsins. Árlegur Kristniboðsdagur Þjóðkirkjunnar er sérstaklega helgaður málefni kristniboðs. Á þeim degi fer fram kynning og fjáröflun fyrir SÍK.
Gídeonfélagið eru frjáls samtök sem gefa Nýja testamentið og dreifa því til grunnskólabarna.
Sjálfboðaliðar hafa staðið fyrir fjáröflun fyrir hjálparstarf og kristniboð, oft er einnig lagt fram vinnu í þágu innanlandsaðstoðar á vegum HK.
o Sóknir taki að sér einstök verkefni hérlendis eða erlendis Aðeins er kunnugt um að einn söfnuður hafi tekið að sér fósturbarn.
o Sóknir sinni fjárhagsaðstoð við fátæka í samstarfi við aðra sem að því koma Hjálparstarfið hefur mótað samstarf og vinnureglur við úthlutanir úr sjóðum í vörslu safnaða og biskupsstofu. Markmið þessa samstarfs er að á einum stað sé forvinna gerð vegna úthlutana og til þess að jafnaðarreglu sé gætt.
Dæmi um slíka sjóði eru Líknar- og viðlagasjóður kirkjunnar og líknar-/hjálparsjóðir á vegum sókna.
Hjálparstarf kirkjunnar, HK, er stærsti aðilinn á sviði hjálparstarfs á vegum kirkjunnar og snertir starfsemi HK alla þætti sem hér hafa verið nefndir að ofan um hjálparstarf. HK hefur gefið út nýja stefnu Stefnumótun Hjálparstarfs kirkjunnar 2006-2010 (sjá heimasíðu www. help.is). HK hefur víðtækt samstarf við hjálparsamtök erlendis um neyðaraðstoð og þróunarhjálp. Aðstoð við fátæka innanlands er einnig unnin í nánu samstarfi við presta, sóknir og stofnanir.
Samband íslenskar kristniboðsfélaga, SÍK, sinnir bæði boðun og kærleiksþjónustu erlendis. Unnið er að útgáfu stefnumótunar í boðun og kristniboði frá Lútherska heimsambandinu „Boðun í breytilegu samhengi. Að umbreyta, sætta og efla“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert