Þjóðskjalasafn Íslands hefur birt öll gögn um símahleranir stjórnvalda á vefsíðu sinni en búið er að strika yfir nöfn þeirra sem voru hleraðir og símanúmer þeirra. Öll gögn um símhleranir eru birt. Á vef safnsins segir að þetta sér gert samkvæmt úrskurði menntamálaráðuneytisins vegna stjórnsýslukæru Kjartans Ólafssonar um aðgang að skjölum um símhleranir á árunum 1949 – 1968.
Samkvæmt úrskurði ráðuneytisins skal veita aðgang að gögnunum m.a. að teknu tilliti til ákvæða 71. greinar stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs, að því er segir á vefsíðunni. „Í framhaldi af úrskurði ráðherra og hins mikla áhuga almennings á aðgangi að skjölunum hefur Þjóðskjalasafn Íslands nú ákveðið að birta þessi skjöl í heild sinni, en hefur afmáð persónugreinanlegar upplýsingar um þá sem hlerað var hjá í samræmi við þau persónuverndarsjónarmið sem felast í 71. grein stjórnarskrárinnar," segir þar.