Héraðsdómur Norðurlands eystra dæmdi í dag rúmlega tvítugan karlmann í tveggja mánaða fangelsi fyrir að stela heitum potti af sólpalli. Afplánun refsingarinnar er hins vegar frestað og mun hún falla niður að þremur liðnum árum haldi maðurinn almennt skilorð. Þá er maðurinn dæmdur til að greiða eigendum pottsins 204.926 krónur með vöxtum frá 8. febrúar 2006 auk þess sem honum er gert að greiða 190.000 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns.
Pottinum var stolið af sólpalli við sumarhús í febrúar. Hann hafði þá ekki verið tengdur en límdur niður með frauði og bentu ummerki á staðnum til þess að hann hefði verið fjarlægður með kúbeini. Eftir að auglýst var eftir pottinum bárust lögreglu á Akureyri upplýsingar um heitan pott sem stóð undir segli í garði ákærða. Var potturinn skoðaður og fundust á honum skemmdir sem stemmdu við lýsingu eigenda stolna pottsins af potti þeirra. Ákærði hafnaði sök en þótti framburður hans, um það hvernig hann hafði eignast pottinn, ekki trúverðugur.