Péturs H. Blöndal hefur birt upplýsingar um kostnað vegna þátttöku sinnar í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík en kostnaðurinn mun nema 2,7 milljónum króna. Yfirlýsing Péturs fylgir hér á eftir.
„Í kjölfar getgátna í fjölmiðlum um kostnað prófkjöra er framboði Péturs H. Blöndal ánægja að upplýsa að kostnaður við framboð hans verður um 2,7 milljónir króna. Lögð var megináhersla á málefnalega umræðu og í því skyni stóð framboðið fyrir fundaröð sem fór fram í Háskóla Íslands. Á fundunum fékk Pétur sem fundarstjóra og andmælendur fólk með mikla þekkingu á viðkomandi málaflokki en oft með annað sjónarhorn. Þannig komu fram mismunandi skoðanir og líflegar umræður.
Framboðið varði 1,6 milljónum króna í fundina og kynningu á þeim. Gefinn var út bæklingur með dagskrá fundanna sem sendur var á öll heimili í Reykjavík og fyrirlestrarnir auglýstir í dagblöðum, hljóðvarpi og á netinu.
Eftir að fundaröðinni lauk voru keyptar almennar auglýsingar þar sem undirstrikað er að Pétur býður sig fram í 2. eða 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sem nú stendur yfir. Þær kosta rúmlega 600 þúsund krónur. Annar kostnaður nam um 400 þúsund krónum, þar á meðal gerð heimasíðu framboðsins og leiga á fundarsölum.