Jafningjafræðslan stendur fyrir „Nóvember gegn nauðgunum"

Jafningjafræðsla Hins Hússins hefur ákveðið að efna til átaks gegn nauðgunum og misneytingu en jafningjafræðslan er forvarnarstarf sem unnið er af ungu fólki fyrir annað ungt fólk. Í gegnum tíðina hefur aðaláhersla starfsins verið á fíkniefnaforvarnir en vegna þeirra mála sem upp hafa komið undanförnu er áhersla þess nú lögð á kynferðisofbeldi.

Í yfirlýsingu samtakanna segir: „Í haust fórum við að heyra af auknum fjölda misneytingarmála innan framhaldsskólanna en misneyting er þegar karlmaður stundar kynlíf með rænulausri eða mjög ölvaðri stúlku.

Í október átti sér svo stað hrina af nauðgunum í miðbæ Reykjavíkur og ákváðum við þá að reyna að leggja okkar af mörkum með því að fara aftur af stað með fræðsluna okkar frá því í sumar. Við útvíkkuðum svo þá hugmynd og ákváðum að kalla þetta átak og standa einnig fyrir uppákomum í nóvember og reyna með því að ná til ungmenna sem ekki eru í framhaldsskólum. Átakið köllum við ,,nóvember gegn nauðgunum’’ en vissulega á boðskapurinn við alla mánuði ársins.

Frítt verður inn á allar uppákomur og fræðslan er skólunum einnig að kostnaðarlausu. Við fengum strax góð viðbrögð hjá forvarnarfulltrúum og í skólum eins og FÁ, MR og Versló erum við einnig að vinna með nemendafélögunum. Við sækjum þekkingu okkar í margvíslegar rannsóknir auk þess sem við fáum fræðslu frá Stígamótum og neyðarmóttöku Landspítalans. Í fræðslu tökum við fyrir sektarhugtakið og leggjum áherslu á það að sökin liggur hjá gerandanum ekki fórnarlambinu og fylgjum með því hugmyndafræði Guðrúnar í Stígamótum. Guðrún leggur ríka áherslu á að við verðum að breyta hugmyndum í samfélaginu ekki hegðun kvenna. Það er réttur kvenna líkt og karla að geta gengið óhultar um götur Reykjavíkurborgar og ef að stúlku verður það á að drekka of mikið og verða fyrir nauðgun í því ástandi þá á það ekki að þýða að hún eigi á einhvern hátt sök á nauðguninni.

Við leggjum áherslu á að stelpur leiti sér hjálpar ef þær hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og bendum þeim hvert á að leita og einnig hvað skal gera ef vinur eða vinkona segir frá kynferðisofbeldi. Strákarnir sem vinna hjá Jafningjafræðslunni beina svo boðskapi sínum til karla og hvetja þá til að skoða hugmyndir sínar um klám, kynlíf og kynferðisofbeldi."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka