Sífellt fleiri Íslendingar halda upp á hrekkjavöku

Íslendingar halda upp á hrekkjavöku í síauknum mæli ef marka má sölu á graskerjum og hrekkjavökuhald á skemmtistöðum. Um helgina voru hrekkjavökuteiti haldin á fjölda skemmtistaða í miðborg Reykjavíkur og mætti fólk grímuklætt til þeirra. Um helmingi fleiri grasker hafa selst í Hagkaupum seinustu vikur en í fyrra, en salan í fyrra var einnig helmingi meiri en árið þar á undan.

Á hrekkjavöku tíðkast að skera út graskersluktir, Jack o´lantern á ensku eða ,,Luktar-Jói" og munu graskerin helst keypt til þess luktargerðar. Luktar-Jói var írskur bóndi sem leitaði sér að hvíldarstað eftir dauðann þar sem hann átti himnaríkisvist ekki vísa og ekki vist í Hel heldur.

Hrekkjavaka heitir Halloween á ensku. Hún hófst meðal Kelta á Írlandi, Bretlandi og í Frakklandi sem heiðinn siður og uppskeruhátíð. Þaðan fluttist hefðin til Bandaríkjanna á 19. öld. Hrekkjavaka er haldin kvöldið fyrir hina kaþólsku allraheilagramessu þann 1. nóvember og eru mörk heima hinna lifandi og hinna dauðu talin óljós þennan dag. Menn dulbjuggu sig til forna og buðu óvættum mat og drykk til að friðþægja þær.

Allraheilagramessa er sameiginlegur minningardagur píslarvotta og messudagur fjölda helgra manna í kaþólskum sið sem ekki eiga sér eigin messudag. Haldið var upp á þann dag hér á landi fram yfir siðaskipti til 1770, að því er fram kemur í bók þjóðháttafræðingsins Árna Björnssonar, Saga daganna.

Á gamalli ensku heitir kvöldið Allhallow Even, eða kvöldið fyrir allraheilagramessu og markaði það upphaf vetrar. Árni segist vel geta hugsað sér að vetri verði framvegis fagnað að hætti hrekkjavöku þar sem sá siður sé skemmtilegur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert