Björn Bjarnason segir að ekki verði vikið frá þeirri meginreglu að almennir lögreglumenn verði óvopnaðir við skyldustörf sín. Hann segir að áfram verði haldið á þeirri braut að efla sérsveit ríkislögreglustjóra. Þetta kom fram við utandagskrárumræður um vopnaburð lögreglumanna á Alþingi í dag.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, var málshefjandi umræðunnar. Í máli hennar kom fram að starf lögreglunnar sé orðið hættulegra á síðustu áratugum en það hafi verið. Hún benti t.a.m. á baráttan gegn smygli og sölu á fíkniefnum og baráttu við alþjóðlega glæpastarfssemi setji svip sinn á störf lögreglu. Þá vísaði hún til nýlegra frétta að lögreglan hafi þurft að yfirbuga mann sem var vopnaður skammbyssu.
Þórunn sagði að starfshópur ríkislögreglustjóra hafa gert það að tillögu sinni að lögregluliðin í landinu fái aukin sérbúnað. Um sé að ræða skammbyssur, skotheld vesti og skothelda hjálma, og hafa tillögurnar verið kynntar dómsmálaráðherra. Hún innti Björn eftir viðbrögðum við því hvort auka ætti vopnabúnað almennra lögreglumanna. Þá benti hún á að það sé ljóst að „fari lögreglumenn að vopnbúast þá muni glæpamennirnir gera það líka. Það skapar hættulegra og ofbeldisfyllra samfélag í stað þess að veita borgurunum betri vernd,“ sagði Þórunn.
„Það hefur lengi verið ríkjandi stefna innan íslensku lögreglunnar að almennir lögreglumenn séu óvopnaðir við almenn löggæslustörf, og hefur engin breyting orðið á þeirri stefnu þrátt fyrir vaxandi fjölmiðlaumræðu um alvarleg mál þar sem lögregla hefur þurft að yfirbuga vopnaða einstaklinga. Það er mín skoðun að ekki sé ástæða að hverfa frá þeirri meginstefnu að hin almenna lögregla í landinu sé óvopnuð við dagleg störf. Þessi mál eru reglulega til umræðu hjá lögregluyfirvöldum enda mikilvægt að lögreglan sé lykilþátttakandi í umræðunni enda um starfsöryggi lögreglumanna að ræða,“ sagði Björn.
Hann sagði að hann telji það vera betri kost að leggja áfram aukna áherslu á uppbygginu sérsveitar lögreglunnar. Á undanförnum árum hafi sérsveitarmönnum verið fjölgað auk þess sem markvisst hafi verið hugað að þjálfun þeirra.
Að sögn Björns skipa 45 menn sérsveitina, þar af 36 á höfuðborgarsvæðinu, fjórir á Akureyri og fimm á Suðurnesjum. Hann segir stöðuna í dag vera með þeim hætti að ávallt séu að lágmarki tveir sérsveitarmenn allan sólarhringinn.
Greina mátti á umræðu þingmanna annarra þingflokka að nauðsyn væri að ræða málið á Alþingi, en samstaða er um að almennir lögreglumenn verði áfram óvopnaðir. Skoða verði málið þó með opnum hug.