Á fundi sínum í gær samþykkti mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar eftirfarandi ályktun.
„Mannréttindanefnd lýsir þungum áhyggjum vegna ítrekaðra nauðgunarglæpa í og við miðborg Reykjavíkur að undanförnu. Nefndin lítur svo á að lögreglan, Reykjavíkurborg og almenningur þurfi að taka höndum saman og berjast með markvissum hætti gegn þessu ofbeldi.
Í fyrsta lagi þarf að auka löggæslu í miðborginni, í öðru lagi þarf að bæta lýsingu og í þriðja lagi þarf að finna leiðir til að auka fræðslu meðal almennings um eðli kynbundins ofbeldis og hvetja til samábyrgðar og opinnar umræðu um glæpi af þessu tagi.
Lagt er til að nefnd um löggæslumálefni, sem er samstarfnefnd Reykjavíkurborgar og lögreglunnar, verði hið fyrsta falið að gera tillögur til úrbóta.
Nefndin hvetur jafnframt til þess að löggjöfin, m.a. hegningarlögin og lög um meðferð opinberra mála, verði endurskoðuð hið fyrsta og afgreidd á yfirstandandi þingi. Í þeirri endurskoðun verði tekið mið af því að kynbundið ofbeldi á sér oftast tað inni á heimilum.