Samfylkingin: Landsvirkjun seld fyrir smánarverð

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, ritar pistil á heimasíðu sína í dag þar sem segir að illa hafi verið haldið á hagsmunum Reykjavíkurborgar og borgarbúa í viðræðum við ríkið varðandi sölu á hlut borgarinnar í Landsvirkjun. „Verðið sem fæst fyrir fyrirtækið er fjarri því að vera ásættanlegt, greiðsluformið er vont og fyrirvarar um einkavæðingu halda ekki,“ segir Dagur.

Þar segir jafnframt að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri hafi með undirritun samningsins fallið frá öllum rökstuddum kröfum og samningsmarkmiðum Reykjavíkurborgar sem hafi staðið út af borðinu í samningum við ríkið þegar síðasta samningalota um Landsvirkjun sigldi í strand. „Og það án þess að ráðfæra sig við borgarráð eða borgarstjórn. Á fundi borgarráðs í dag var afgreiðslu á þeim samningi sem undirritaður var af borgarstjóra í gær frestað enda er gríðarlega mörgum spurningum ósvarað um samningagerðina og undanlátssemi við óbilgirni ríkisstjórnarinnar við samningaborðið,“ segir Dagur á heimsíðu sinni.

Hann segir einnig að fyrir tæpu ári síðan hafi Reykjavíkurborg rökstutt að verðmæti Landsvirkjunar væri allt að 90 milljarðar ef tekið væri mið af eðlilegum forsendum framtíðarverðs á raforku, áhættu í rekstri Landsvirkjunar og hefðbundnum vinnubrögðum við verðmat á stórum fyrirtækjum. „Í borgarráði í dag krafðist Samfylkingin þess að borgarstjóri svaraði því skriflega hvers vegnar fallið hefði verið frá þessum rökstuddu kröfum. Munurinn á mati borgarinnar og samningi borgarstjóra er 50% og jafngildir hátt í 15 milljarða króna tekjum fyrir borgarsjóð sem Reykjavíkurborg varð af fyrir vikið.“

Dagur bætir því við að Samfylkingin hafi stutt hugmyndir um sölu á hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun - „en ekki á undirverði, hvað þá smánarverði. Það var ekkert sem kallaði á að ganga að þessum afarkostum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert