Íslendingar í þróunarverkefni á sviði jarðvegsbóta

Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun kynnti utanríkisráðherra þá ákvörðun sína að stofna til þróunarverkefnis á sviði jarðvegsbóta. Verkefnið felur í sér aðstoð í formi þekkingarmiðlunar og framlags til baráttunnar gegn eyðimerkurmyndun í heiminum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, og má ennfremur líta á sem lið í aðgerðum þjóða heims til að draga úr loftslagsbreytingum. Framkvæmd þess verður í höndum Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslu ríkisins.

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu er hnignun vistkerfa, eyðing gróðurs, jarðvegseyðing og myndun eyðimarka meðal alvarlegustu umhverfisvandamála heimsins. Þau eiga mikinn þátt í loftslagsbreytingum, þverrandi líffræðilegum fjölbreytileika, vaxandi fátækt í mörgum löndum og skertu fæðuöryggi jarðarbúa. Mikið er í húfi að takist að sigrast á þessu vandamáli og endurheimta landgæði. Verst er ástandið í þróunarlöndunum og þar koma afleiðingar landhnignunar harðast niður.

„Íslenskar aðstæður henta óvenjulega vel til samstarfs við þróunarlönd um fræðslu og starfsþjálfun á sviði landgræðslu og jarðvegsverndar. Eðli, orsakir og afleiðingar landhnignunar og jarðvegseyðingar á Íslandi eiga sér hliðstæðu í mörgum þróunarlöndum. Hér á landi hefur verið unnið þrekvirki í að stöðva jarðvegsrof og endurreisa landgæði, en á næsta ári verða 100 ár liðin frá setningu laga um landgræðslu hér á landi. Sú mikla fagþekking sem aflað hefur verið á grunni rannsókna og reynslu á mikið erindi til annarra landa þrátt fyrir ólíkar veðurfarsaðstæður og skapar okkur nokkra sérstöðu á þessu sviði, t.d. meðal Evrópuþjóða.

Utanríkisráðuneytið tók fyrir ári fyrir Íslands hönd við forsvari samnings Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn eyðimerkurmyndun (UNCCD) og skipuð var samstarfsnefnd þriggja ráðuneyta og undirstofnana. Nefndina skipa fulltrúar landbúnaðar- og umhverfisráðuneyta og fjögurra undirstofnana þeirra. Auðlinda- og umhverfisskrifstofa utanríkisráðuneytisins fer með formennsku nefndarinnar." Ráðgert er að verkefnið hefjist þegar næsta sumar með námsdvöl valins hóps fagfólks frá þróunarlöndum á sviði landgræðslu og jarðvegsverndar við stofnanir hér á landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert