Heitar umræður urðu í Silfri Egils á Stöð 2 í dag, en þar sagði Magnús Þór Hafsteinsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, að stemma yrði stigu við straumi innflytjenda til Íslands. Þá nefndi hann sérstaklega múslíma, sagði þá koma frá öðrum menningarheimum og eiga erfitt með að aðlagast þeim íslenska.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarfulltrúi sagði í framhaldi af því að þau ummæli bæru keim af kynþáttahatri, en Magnús sagði það alrangt og vísaði í átök í öðrum löndum og innflutning á erlendu vinnuafli sem fengi greitt lægstu mögulegu laun.
Magnús sagði einn helsta kost Íslendinga hafa verið opinn hugur fyrir því sem að utan kæmi. Steinunn sagði Magnús kynda undir rasisma. Nær væri að læra af reynslu Norðulandaþjóðanna af vandamálum sem tengdust innflytjendum og aðstöðu þeirra í hinum nýju heimalöndum sínum.