Björgvin G. Sigurðsson hlaut flest atkvæði í fyrsta sætið á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, samkvæmt fyrstu tölum úr prófkjöri er birtar voru nú klukkan 18.15. Í öðru sæti er Ragnheiður Hergeirsdóttir, Lúðvík Bergvinsson í því þriðja, Róbert Marshall í fjórða og Jón Gunnarsson í fimmta.
Þegar 1.500 atkvæði höfðu verið talin hafði Björgvin fengið 503 í fyrsta sæti, Ragnheiður 427 atkvæði í 1.-3. sæti, Lúðvík 554 atkvæði í 1.-4. sæti, Róbert 705 atkvæði í 1.-5. sæti og Jón 606 atkvæði í 1.-5.
Björgvin sagði er fyrstu tölur lágu fyrir að einungis væri um að ræða lítinn hluta atkvæða og eins mætti búast við að staðan gerbreyttist.
Alls greiddu 5.146 manns atkvæði í prófkjörinu, sem lauk á laugardag. Ekki var þó unnt að telja í gær þar sem veður kom í veg fyrir að hægt væri að flytja kjörgögn frá Vestmannaeyjum. Vonast mun vera til að hægt verði að birta lokatölur um sjöleytið í kvöld.