Nokkur eldur kom upp í loftræstiklefa á bifreiðaverkstæði í Grófinni í Keflavík fyrir hádegi í dag. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu mátti litlu muna að illa færi því talsverður eldsmatur var í húsinu, og var eldurinn að breiða sig inn á verkstæðið sjálft þegar slökkvilið kom á staðinn. Nokkrir bílar voru í verkstæðissal en var þeim ýtt út áður en þeir urðu fyrir skemmdum af reyk eða eldi.
Í húsnæðinu var áður sprautunarverkstæði en þar er nú enginn formlegur rekstur, heldur hefur fólk afnot af húsnæðinu til að vinna í eigin bílum. Rafmagnstruflana hafði orðið vart í húsnæðinu og rafvirki verið við vinnu í klefanum í morgun. Hann var ekki inni í klefanum þegar eldurinn kom upp, en varð var við hann þegar hann snéri aftir.
Talsvert tjón varð á klefanum, en litlar skemmdir urðu á verkstæðinu sjálfu.