Jón Kr. Arnarson, nýr pistlahöfundur á vefsíðu Vinstrihreyfingarinnar- græns framboðs, stingur upp á því í pistli sínum í dag að útlendingum verði seldur aðgangur að höggmyndum Ásmundar Sveinssonar í því skyni að mölva þær niður. Eitthvað stórt vanti til að bjarga efnahag landsins til að halda uppi háum lífskjörum. Með því að flytja styttur Ásmundar til Ísafjarðar sé hægt að skapa þar vinnu. Fyrst þurfi þó að fara fram hagkvæmniathugun og meta þurfi verðmæti listaverkanna.
,,Við þurfum væntanlega að gera arðsemismat og gera eðlilega arðsemiskröfu. Að vísu mætti lækka arðsemiskröfuna verulega og eins vaxtakostnað af fjárfestingunni með því að fá ríki og Borg til að ábyrgjast þau lán sem taka þarf fyrir stofnkostnaði. Síðan þarf að gera markaðskönnun og athuga hvaða verð er hægt að fá fyrir hvert skemmdarverk. Við ættum að geta boðið mun lægra verð en aðrar þjóðir sem hugsanlega vildu keppa við okkur með því að bjóða fram verk sinna meistara. Íslendingar hafa aldrei verið mikið fyrir listaverk og þess vegna ætti verðið að geta orðið vel samkeppnisfært. Það er mikið til af fallegum íslenskum listaverkum sem fáir hafa séð," segir Jón í pistli sínum.
Þá sé rétt að setja upp formlegt matsferli þar sem metin verði menningarleg áhrif þessarar sérstöku nýtingar og eins geti almenningur þá komið fram með athugasemdir. ,,Listasafn Íslands getur svo verið úrskurðaraðili. Við þurfum reyndar að tryggja að rétt fólk fari þar með völdin en svo má setja þann varnagla að ef úrskurðurinn verður neikvæður þá geti menntamálaráðherra einhliða breytt þeim úrskurði. Þannig getum við gert öllum sjónarmiðum jafn hátt undir höfði án þess að eiga það á hættu að þetta þjóðþrifamál verði stöðvað af misvitrum embættismönnum," segir Jón.
Með því að gera afsteypur af frummyndunum megi brjóta mun fleiri verk og búa til enn fleiri störf. Í framhaldinu megi svo eyðileggja verk annarra listamanna, t.d. Einars Jónssonar og Kjarvals. Jón telur réttast að byrja á verkum Ásmundar, fái hafi hvort eð er séð þau og sumum þyki þau ljót.
,,Ég geri mér grein fyrir að þetta gæti mætt hörðum mótmælum frá listaverkaverndunarsinnum. Með öflugum áróðri ætti samt að vera hægt að berja það niður. Svo má siga lögreglunni á þá sem vilja mótmæla þessu. Auðvitað er alltaf erfitt að fórna svona verðmætum en hvað eigum við að gera? Sem þjóð þá verðum við að nýta okkar auðlindir og það má segja að listaverkin séu okkar olía. Ég hef alltaf verið mjög hrifinn af íslenskum listaverkum en ekki viljum við fara aftur í torfkofana," segir Jón. Vart þarf að benda á að pistillinn er ekki meintur bókstaflega heldur til að benda á stóriðjuverkefni í landinu sem VG eru á móti.