eftir Sunnu Ósk Logadóttur
og Bjarna Ólafsson
FRÁ 1. maí, þegar breytingar á lögum um frjálst flæði vinnuafls frá átta nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins tóku gildi, hefur Vinnumálastofnun skráð 3.327 manns frá þessum löndum, þar af eru um 2.447 nýskráningar. Telur stofnunin að enn eigi eftir að skila sér um 2.000 skráningar, miðað við fjölda útgefinna kennitalna hjá Þjóðskrá.
Á síðasta ári komu 2.765 launamenn frá nýju aðildarríkjunum, eða rétt tæp 70% allra sem fengu hér atvinnuleyfi, 3.965 manns á síðasta ári.
Telur Vinnumálastofnun að sambærileg heildartala í dag væri um 7.000, að teknu tilliti til vanskráningar samkvæmt Þjóðskrá.
Löndin átta sem um ræðir eru Pólland, Lettland, Litháen, Eistland, Ungverjaland, Tékkland, Slóvenía og Slóvakía. Fyrirvari um réttindi þeirra á íslenskum vinnumarkaði féll úr gildi með lagabreytingu sl. vor. Breytingin leiddi til þess að fólk frá þessum löndum þarf ekki lengur atvinnuleyfi til að starfa á íslenskum vinnumarkaði.
Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, segist telja flæði vinnuafls frá löndunum átta meira en menn hafi átt von á. Hann telur fólkið allt fá vinnu en nauðsynlegt sé að efla íslenskukennslu.
Meira flæði | 10-11 og miðopna