Lítið hagkerfi, eins og það íslenska, hefur upp á takmarkaða eftirspurn eða framleiðslugetu að bjóða til að laða að starfsemi erlendra fjármálafyrirtækja. Á hinn bóginn eru innviðir efnahagslífsins mjög samkeppnishæfir og stjórnkerfið hefur til að bera sveigjanleikja, sem gæti stuðlað að verulegri tekjuaukningu af alþjóðlegri fjármálastarfsemi.
Þetta kemur m.a. fram í skýrslu um alþjóðlega fjármálastarfsemi á Íslandi, sem nefnd á vegum forsætisráðráðherra hefur sent frá sér. Skýrslan verður kynnt á ráðstefnu á morgun.
Í skýrslunni segir, að miklu skipti að skilgreina bestu möguleika Íslands í samkeppni landa á sviði alþjóðlegrar fjármálastarfsemi og framrás íslenskra félaga á alþjóðlegum mörkuðum.
„Fyrir örríki í efnahagslegum skilningi getur það haft gífurlega þýðingu ef fyrirtæki sem rætur eiga í íslensku efnahagslífi ná brotabroti af stórum alþjóðlegum mörkuðum eða þeim tekst að ná fótfestu í atvinnulífi þjóða þar sem íbúar skipta tugum milljóna. Hugmyndin um að efla alþjóðlega fjármálastarfsemi snýst um að veita hingað alþjóðlegum fjármagnshreyfingum, gera landið að höfn höfuðstöðva alþjóðlegra fyrirtækja og mynda tekjustrauma, sem með hóflegri skattlagningu yrðu mikilvæg tekjulind fyrir íslenska ríkið og uppspretta nýrra og arðbærra sérfræðistarfa. Um er að ræða umhverfisvæna starfsemi, þar sem með litlum fórnarkostnaði er hægt að skapa umtalsverðar tekjur fyrir þjóðarbúið," segir m.a. í skýrslunni.
Sigurður Einarsson, stjórnarformaður KB banka var formaður nefndarinnar sem skipuð var í nóvember á síðasta ári.