Kröfur um tvöföldun Suðurlandsvegar verða háværari

Horft niður á Suðurlandsveg.
Horft niður á Suðurlandsveg. mbl.is/Ragnar Axelsson

Mikil umræða er nú á Suðurlandi um nauðsyn þess að tvöfalda eigi Suðurlandsveg og ber áherslan á tvöföldun vegarins hæst í þeirri prófkjörsbaráttu sem nú stendur yfir hjá Sjálfstæðisflokknum í Suðurkjördæmi. Í Sunnlenska fréttablaðinu í dag, er hálfsíðu auglýsing þar sem bæjarstjórar, þingmenn og fleiri ráðamenn hvetja til þess að tekin verði ákvörðun um veginn.

Á fundi sem eigendur Suðurlandsvegar ehf. héldu nýlega, þ.e. Sjóvá, Árborg, Hveragerðisbær, Ölfus, Grímsnes og Grafningur og SASS, kom fram í máli Þórs Sigfússonar, forstjóra, að frá árinu 1990 hefðu 1222 slasast í 2576 umferðaróhöppum á Suðurlandsvegi frá Reykjavík að Selfossi. Á fundinum kom einnig fram að umferðaróhöpp á Suðurlandsvegi eru 116% dýrari en annarstaðar. Á morgun kl. 15 verður athöfn undir forystu Hannesar Kristmundssonar, garðyrkjumanns frá Hveragerði, þar sem reistir verða 52 krossar við Kögunarhól í Ölfusi til minningar um þá sem týnt hafa lífi á þessari leið frá árinu 1972.

Opnuð hefur verið heimasíðan suðurlandsvegur.is, þar sem fólk er hvatt til að skrá sig og efla samstöðuna um málið. Er lögð áhersla á að farin verði leið sem Sjóvá hefur bent á varðandi framkvæmdir, einkaframkvæmd sem greidd yrði með svonefndum skuggagjöldum af hálfu ríkisins.

Suðurlandsvegur.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert