Óvissa um framtíð Íslendingabókar

Eftir Brján Jónasson brjann@mbl.is
Starfsemi Íslendingabókar virðist í uppnámi og hafa farið fram fundir milli Friðriks Skúlasonar ehf., sem starfrækir gagnagrunninn, og Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE), sem hefur staðið straum af kostnaði við starfsfólk, tölvubúnað og annað tengt Íslendingabók.

Friðrik Skúlason, stofnandi og annar aðaleigandi samnefnds tölvufyrirtækis, vildi sem minnst segja um málið þegar Morgunblaðið hafði samband við hann í gær, aðeins að Íslendingabók yrði líklega áfram opin almenningi á netinu næstu þrjá mánuði. Þá rennur út uppsagnarfrestur þeirra starfsmanna ÍE sem starfað hafa við Íslendingabók.

"Við munum auðvitað leita leiða til að halda Íslendingabók opinni til frambúðar, en til þess þarf auðvitað mannskap," segir Friðrik. "Þegar fjórir af fimm starfsmönnum hætta er sjálfgefið að það hefur í för með sér einhverjar breytingar á starfseminni." Nú séu í gangi viðræður um framtíðina og verði sameiginleg tilkynning fyrirtækjanna tveggja líklega gefin út í dag vegna málsins.

Íslendingabók er ættfræðigagnagrunnur með upplýsingum um ættir um 720 þúsund Íslendinga. Starfsmenn hafa starfsaðstöðu hjá Friðriki Skúlasyni ehf. og lúta verkstjórn Friðriks, en eru starfsmenn ÍE. Þremur hefur nú verið sagt upp störfum og sá fjórði var einungis settur í verkefnið tímabundið til áramóta. Eftir tæpa þrjá mánuði stefnir því í að aðeins einn maður starfi við Íslendingabók. Þar hefur m.a. verið unnið við að skrá upplýsingar úr gömlum heimildum, uppfæra skv. þjóðskrá og svara fyrirspurnum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert