Félag ungra vinstri-grænna hefur sent frá sér tilkynningu þar sem málflutningur Magnúsar Þórs Hafsteinssonar og samherja hans innan Frjálslynda flokksins af málefnum innflytjenda er harmaður. Segir að ljóst sé að umræða um málefni innflytjenda sem byggi á upphrópunum og hræðsluáróðri komi engum til góða og leysi engin vandamál, jafnvel ekki vandamál sem Íslendingar eigi að mati Frjálslyndra eftir að standa frammi fyrir í ókominni framtíð.
Segja ung vinstri græn ósmekklegt og ómálefnalegt að líkja komu vinnandi fólks frá öðrum löndum til Íslands við innrás, og að framámönnum í stjórnmálum eigi ekki að líðast slíkur ofstopi í garð einstakra hópa.
Saka UVG frjálslynda um lýðskrum og segja umfjöllun þeirra til þess fallna að valda hræðslu og úlfúð í samfélaginu í garð innflytjenda sem koma hingað til lands til að vinna störf sem þarf að vinna.
Ung vinstri-græn segjast telja að málflutningur sem þessi sé eingöngu til þess fallinn að skapa djúpstæða gjá milli innflytjenda og þeirra sem fyrir búa. Með því að nálgast „vandamálið“ á þennan hátt sé því verið að búa til vandmál.
Þá segir að ef talsmenn Frjálslynda flokksins haldi áfram á sömu braut og sjá ekki að sér, telji stjórn Ungra vinstri-grænna það augljóst að ekki sé hægt að starfa með flokknum í stjórnarandstöðusamstarfi. Ung vinstri-græn hvetja því þingflokk Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs til að endurskoða hug sinn til samstarfs við stjórnmálaflokk með svo vafasamar áherslur í mikilvægum málaflokki.
Segir í tilkynningu að best verði komið í veg fyrir vandamál með því að styðjafólk sem hingað er komið og hjálpa því að aðlagast.